Hvert flýgur þú? | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hvert flýgur þú?

Fyrsta ljóðlína:Hvert flýgur þú litli fuglinn minn
bls.22
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Hvert flýgur þú litli fuglinn minn
er fölva haustsins á grasið slær?
Ég hlustaði á sumarsönginn þinn.
Þú söngst mig gleðinnar himni nær.
2.
Þú komst með vorblænum, vinur minn
er vetrarskuggarnir liðu hjá.
Þá vaknaði aftur við óðinn þinn
mín áður kulnaða sumarþrá.
3.
Er haustið kemur og nálgast nótt
úr norðursins kalda myrka geim
þú hraðar för þinni héðan skjótt.
Ég heyri þytinn frá vængjum tveim.
4.
Þín leið var mörkuð um langsótt höf
til landanna hlýju suður frá.
En ég stóð eftir við opna gröf.
Þar önduð sumarvonin mín lá.