Til Einars Hjörleifssonar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Til Einars Hjörleifssonar

Fyrsta ljóðlína:Með kæru vori komstu hér
bls.55
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Með kæru vori komstu hér
vor kæri heiðursgestur
með andans blóm í barmi þér
þau berðu fram, svo njótum vér
og þess kyns blóm oss brestur.
2.
Þú komst hér og með kærleiks yl
oss kveðjuorð að færa
því frá oss ráðinn farar til
þú fýstist nú um láð og hyl
til okkar ættlands kæra.
3.
Og hljóðleiks skugga húm því ber
á hugi þinna vina
þá skreyttur horfinn skjöldur er
á skarðið auða horfum vér
og finnst þá fátt um hina.
4.
Þú stóðst í raun við storm og sjó
við stjórn á letra fleyi
þá ýmsum megin aldan sló
þú aldrei breyttir stefnu þó
og hraktist heldur eigi.
5.
Í stafni knarar stóðstu fast
þá styrjöld bar að höndum
og hinna löngu brynja brast
því beit þér andans vopnið hvasst
og kvað á klofnum röndum.
6.
Og ljóða snilldar laginn til
þú lékst á hörpu Braga
við gleði, söng og ástaryl
við ættlands þrá og sorgarspil
jafn töm var tungan haga.
7.
Í skemmtileik þú sönn varst sál
þín sakna gleðivinir.
Þótt fylking okkar standi strjál
þér stíla allir þakkarmál
þeir sönnu Íslands synir.
8.
Á meðan vonin ljós oss ljær
er létt sinn vin að kveðja.
Við eigum þig, þótt unir fjær
með andans blóm þú til vor nær
að gagna oss og gleðja.
9.
Að fararheill þér fylgi sönn
oss fellur ljúft að biðja.
Þér vaggi stillt og hýrbrýn hrönn
en hnjúkar Íslands krýndir fönn
við nýtum brosi niðja.
10.
Vor forna kæra feðra grund
þér faðminn móti breiði.
Þér fagni þjóðin frjáls í lund
þér fylgi gæfan alla stund
og bjarta braut þig leiði.