Daði fróði | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Daði fróði

Fyrsta ljóðlína:Sjaldan lengi sætt var þér við lestur
bls.89
Viðm.ártal:≈ 2000
1.
Sjaldan lengi
sætt var þér við lestur.
Alltaf varstu í öllum húsum gestur
- oft þig kvöl hins smáða í hjartað skar!
Enginn kostur var þér farsæll festur
flest þér löngum andstætt var.
En fróðari en sérhver sóknarprestur
samt þú varst um horfið aldarfar!
2.
Úti í bylnum
einn þú mættir dauða.
Feigðin dró þig inn í nepju nauða
- á Neðribyggð var foraðsveður illt!
Dauðinn oft er huggun hinum snauða
hann gat ævibölið þunga stillt.
En þjóðarsagan síður marga auða
sýnir er þú hefðir getað fyllt!


Athugagreinar

Varð úti á Skagaströnd 8. jan. 1857