Að Giljá | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Að Giljá

Fyrsta ljóðlína:Allt er undur ríkt
Höfundur:Friðrik Hansen
bls.44
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Allt er undurríkt
Allt er fátækt þó
sjálft grasið grænt og hlýtt
sem grær um hvamm og mó.
2.
Ég heyri hreinan söng
ég heyri fagran róm.
Þau hlusta ennþá hljóð
þín hýru melablóm.
3.
Ég sé í norðri sól
hér sástu oft þá tign.
Enginn var eins og þú
á yndi vorsins skyggn.
4.
Hver hæð, hvert strá og steinn
hver stígur, hvammur, vað
segir sögu af þér.
Ég sé þig á hverjum stað.
5.
Ég sé þinn óskaeld
og æskuléttu spor.
Ég sé þitt sumarkveld
ég sé þitt fagra vor.
6.
Þó er allt svo autt
um æskulöndin þín.
Ég grét o´n í gamla slóð
er gekkstu vina mín.