Eining er máttur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Eining er máttur

Fyrsta ljóðlína:Klæddir serki samúðar
bls.44-47
Viðm.ártal:≈ 1950

Skýringar

Stökur ortar til Félags Suðurnesjamanna
í tilefni af 10 ára afmæli þess 17. okt. 1953
1.
Klæddir serki samúðar
sigrar í verki máttur.
Undir merki einingar
er hinn sterki þáttur.
2.
Eitt er það sem ekki brást
endurminning kynna
– þeim sem meta æskuást
átthaganna sinna.
3.
Þar sem enn er ekkert skjól
auðnir landsins kalda.
Björkin móti birtu og sól
brýst til nýrra valda.
4.
Hlynum klæðir hraunin grá
hlýja mætra granna
samhugur og sigurþrá
Suðurnesjamanna.
5.
Bjart er þeirra sjónarsvið
– sigurinn skapar arðinn –
en margan hrekur mæddan við
mannlífs skerjagarðinn.
6.
Þar var áður, þar er enn
þreytt við Ránar aflið
vel hafa þar vaskir menn
vogað og unnið taflið.
7.
Það er líka saga sönn
sem er skráð með tárum:
Margan hefur marar hrönn
myrkvað sínum bárum.
8.
Því er oft svo tvísýnt tafl
teflt í slíkum vanda
megnar ekkert mannlegt afl
marar brögðin standa.
9.
Fyrr sem atti orkuhreinn
oft við Ránar traðir.
Ég á hjá þér, Ægir, einn
elskulegan faðir.
10.
Renni á þig reiðikast
rekkur máttur dvínar.
Hafa löngum haldið fast
heljar greipar þínar.
11.
Hver sem þína votu vök
veður báru falda
á að baki yfirtök
æðri máttarvalda.
12.
Þó þú meðir mannleg börn
mædd af þínum rökum
samhugur í sókn og vörn
sigrar þig að lokum
13.
Rennur gnoðin reistan sjá
roðnar hringur fjalla.
Samúð boðar björtust þá
blys á grænum hjalla.
14.
Þarf ei kvarta þjóð sem á
þrek og hjartaylinn.
Geislar bjartir glitra þá
gegnum svarta bylinn.