Ritstjórarúnir ristar með gullpenna | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Ritstjórarúnir ristar með gullpenna

Fyrsta ljóðlína:Mig vill gigt og þrautir þjá
bls.205
Viðm.ártal:≈ 1875

Skýringar

Mi. 2. sept. 2021 Endurfluttur þáttur GStefánssonar um Jón Ólafsson ritstjóra áður 2017.
Þáttarstjórnandi vitnaði mest til 3 heimildamanna: Þorsteins Gíslasonar, Gils Guðmundssonar og Hjartar Pálssonar.
1.
Mig vill gigt og þreyta þjá
það er hart að lifa
og hafa sig hvorki í né á
en alltaf verða að skrifa.
2.
Hvern dag fram í háttamál
húki´ eg á stól og skrifa.
Hreyfi ei skrokk en svelti sál
svona má ég lifa.
3.
Ungum lék mér löngun á
að lifa til að skrifa.
Sköp hafa því svo skipt, ég má
skrifa til að lifa.
4.
Ég á marga munna smá
munna er þurfa að lifa.
Mér er skylt að metta þá
og má því til að skrifa.
5.
Ekki sé ég önnur ráð
eigi þeir að lifa
en sál og líkam láta þjáð
og lífið úr mér skrifa.
6.
Tími að lesa enginn er
alltaf verð að skrifa
heilsa og ævi þar til þver
og þetta á að heita að lifa.


Athugagreinar

Höfundur hafði inngang að vísum sínum og segir þar m.a.: Nokkrir kunningjar kjöftuðu af mér allan tíma . . . ofninn kaldur og kolalaus . . . og áður en ég vissi af dansaði gullpenninn minn hraðasta stökkdans yfir pappírinn því forsjóninni til ergelsis og háðungar skrifa ég allt með gullpenna og þegar ég fór að rekja sporin á eftir, gat ég lesið úr pennaförunum þessar ritstjórarúnir, ristar með gullpenna.
Úr útvarpsþætti frá 2017