Úr daglega lífinu | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Úr daglega lífinu

Fyrsta ljóðlína:Uppskafningur mætti mér
bls.131
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Uppskafningur mætti mér
manni þessum bauð ég kver
glottið sem hann glotti þá
gaman þótti mér að sjá.
2.
„Ertu vitlaus, viltu fá
úr vasa mínum dali þrjá
fyrir skitið kvæðakver
hvað ert þú að gefa mér?“
3.
„Vitlausan“, fyrst þekki eg þig
þú mátt óhætt kalla mig.
„En fyrir dagsverk færðu þitt
fimmtíu ára starfið mitt.“
4.
Síðan gekk hver sína leið
sólin skein á grænan meið.
En gróðinn sem að burt ég bar
í buddu minni léttur var.
5.
En hann á dansi dyntar sér
dagur þegar liðinn er
og við sérhvern daður-dans
drjúgum léttist buddan hans


Athugagreinar

Athugasemd: Mér þykir leiðinlegt að geta ekki látið myndina hans fylgja þessu kvæði öðrum til viðvörunar. – – „Sólin skein á grænan meið“ er sett þarna til þess að gera kvæðið skáldlegra og tilkomumeira, þó það komi málefninu ekkert við, því að sannast að segja var ekkert sólskin og enginn grænn meiður að skína á innan við hundrað mílna svæði.