Bernskuslóðir | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Bernskuslóðir

Fyrsta ljóðlína:Húnaþing, mitt augnayndi
bls.1980
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Húnaþing, mitt augnayndi
eru tignu fjöllin þín,
sólglituð í sunnanvindi
sviphrein, klædd í vetrarlín.
Núpur, fell og bungur breiðar
brúnir, eggjar, tindar, heiðar,
hugann laða heim til sín.
2.
Vatnsdalsfjallið, djásnið dýra,
dalsins börnum veitir skjól.
Héraðsprýðin skartar skíra,
skrauti vafin höfuðból.
Í vorsins krafti fossar falla,
flæða um gil og klettastalla.
Hlýnar loft og hækkar sól.
3.
Hraustir menn og daladætur –
dýrmætan þið hlutuð arf.
Æskufólk, sem á hér rætur,
ykkar bíður veglegt starf.
Yrkja skóga, runna, rjóður,
rækta, styrkja landsins gróður.
Skrýðast melur skrauti þarf.
4.
Uppvaxandi æskulýður
á hér metnað, vit og þor.
Morgundagur bjartur býður
brautargengi, sól og vor.
Ungu menn, sem elskið dalinn,
einmitt hér er gimsteinn falinn.
Fræ í djúpri fjallaskor.
5.
Upp við Hnjúksins breiða barminn
barnæskunnar fyrst ég nýt.
Brosfagur hann býður arminn,
blessa ég hann ávallt hlýt.
Um hann ferðast oft í draumi
öllum fjarrri borgarglaumi.
Ástaraugum eg hann lít.
6.
Af Hnjúknum sé ég vegu víða,
Vatnsdalshóla, Eylendið.
Næst mér speglast Flóðið fríða,
fuglabyggð og laxamið.
Axlaröxlin, hamrahöllin,
Húnavatn og Strandafjöllin.
Vermir enn það sjónarsvið.
7.
Horfi ég til allra átta.
Ógleymanleg fjallasýn.
Seiður magnast sumarnátta –
sumarmorgunn fegurst skín.
Silungsá, þú lygn fram líður,
lífsins æðasláttur tíður.
Bylgjur hafsins bíða þín.
8.
Helgavatns er tjörnin tæra
tandurhrein og spegilslétt.
Andarungar enn þar læra
yppta vængjum furðu létt.
Í sefi grænu synda, kvaka
svanahjón og flugið taka
suður heiðar, sæl og mett.
9.
Marga vornótt var mér falið
að varna skepnum töðuvöll,
barnaverk, sem þá var talið.
Við mér blasti sveitin öll.
Seppi var minn vinur besti
við hann mikla ást ég festi,
enda var hann tryggðatröll.
10.
Fyrir hann ég samdi sögur
söngvaglöð og draumlynd mær.
Við mér brostu björt og fögur
blóm í haga litaskær.
Seppi varði tún og teiga,
trúan vin er gott að eiga.
Tíminn leið sem lækur tær.
11.
Húmið vefur hæð og tinda,
hylur dagsins geislaflóð.
Fuglahjörð sér lætur lynda
um lágnættið að vera hljóð.
Þá við njótum þagnarinnar
í þráðum friði næturinnar.
Blundar engjarósin rjóð.
12.
Sólin rís og geisla glóa,
gylla dúnmjúk táraský,
blærinn strýkur mel og móa.
Morgundöggin fersk og ný.
Blöðin opnast, blómin titra,
í björtu foldarskauti glitra.
Öll mín veröld orðin hlý.
13.
Hvílík fegurð – svanir syngja,
söngur þeirra hljómar skær.
Silfurbjöllum saman klingja,
svífa álftir tvær og tvær.
Sólin vængjuð signir landið,
sveipar allt í geislabandið.
Í faðmi dalsins fjólan hlær.
14.
Bernskudalur, bjartar myndir
birtast mér, þá allt er hljótt.
Hjá þér drakk ég lífsins lindir,
ljóðið mitt er til þín sótt.
Alltaf þrái ég endurfundi –
eiga þar í blómalundi
sæla milda sumarnótt.