Heim á Strandir – Tileinkað Jóhönnu Thorarensen | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Heim á Strandir – Tileinkað Jóhönnu Thorarensen

Fyrsta ljóðlína:Heim á Strandir hugur flýgur
bls.41-42
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Strandir
1.
Heim á Strandir hugur flýgur,
heilög gleði fyllir sál.
Andvarp heitt frá hjarta stígur,
horfnar stundir öðlast mál.
2.
Sé ég vítt um víkur allar,
veit að þarna á ég spor.
Yfir flóann á mig kallar
æsku minnar sólskinsvor.
3.
Kemst ég þar í hugans hæstu
hrifningu sem vart má tjá.
Strandafjöllin fögru og glæstu
faðminn breiða tignarhá.
4.
Allt ég þekki á þessum slóðum,
þúfur, steina, dal og hlíð.
Ljúfa vist hjá vinum góðum
vil ég þakka alla tíð.
5.
Eins og glöðu litlu lambi
líður mér á heillastund,
hraða mér því heim að Kambi,
hjartað á þar vinafund.
6.
Þar við augum blasir bjarta
bernskumyndin hrein og tær.
Djúpur friður fyllir hjarta,
fegurð þessi er mér kær.
7.
Öll er myndin yndisfögur,
andar tign úr hverjum reit.
Handan fjarðar greinist Gjögur,
Guð, ég elska þessa sveit.
8.
Þegar lífs á lokadegi
lít ég yfir sporin mín.,
Drottinn minn – þá sæl ég segi;
söm var alltaf gæska þín.


Athugagreinar

Ljóðið er ort í orðastað Jóhönnu, sem sendi til birtingar í Strandapóstinn sæl í sinni.