Strandir | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Strandir

Fyrsta ljóðlína:Himingnæfandi háfjöllin rísa
bls.12-13
Viðm.ártal:≈ 1925
Himingnæfandi háfjöllin rísa
hlífa dölum í aldanna straum.
Strandasýslu í stuðlum skal prísa
stöðugt uppfyllir hetjanna draum.
Fella kólgur á framverði Stranda,
fast er staðið því aldan er breið
þokast fram á þroskaleið,
þegnar allir í baráttu standa.
Við hörku hafs og lands
og hlýju vinabands,
skal tengjast fólk með trausta lund
í trú á Stranda-grund.

Hækka vonir á háreistum Ströndum,
hrönn og land elur kjarnmikla þjóð.
Lyftist hugur á ljósvængjum þöndum,
loga drangar í vorsólarglóð,
blása vindar og björkina sveigja,
báran leikur við útsker og sand.
Lengir vorið litaband,
lífið sigrar en skuggarnir deyja.
Sækjum á, sækjum á,
senn hærra marki ná,
frá innstu sveit að ystu strönd
skal efla kærleiksbönd.