Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Drukkinn bóndi úr Skyttudal | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (1291)
Afmæliskvæði  (11)
Ástarljóð  (10)
barnagælur  (1)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (13)
Ferðavísur  (3)
Gamankvæði  (18)
Háðkvæði  (8)
Heilræði  (1)
Hestavísur  (2)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (8)
Húnvetningar  (7)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (3)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (48)
Oddi  (1)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Sálmur  (2)
Skáldsþankar  (44)
Strandir  (2)
Söguljóð  (11)
Söngvamál  (1)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (4)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Drukkinn bóndi úr Skyttudal

Fyrsta ljóðlína:Er byggðin fyllist sorta langra síðsumarnótta
bls.34-37
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Er byggðin fyllist sorta langra síðsumarnótta,
og svefndrukkinn blærinn leikur fölnuð engin við,
þá kemur hann eftir veginum á klárnum ljósaskjótta,
með klyfjahest í taumi, að dalabænda sið.
2.
Hann er bóndi framan úr dölum, er heim úr kaupstað kemur,
hann kemur þangað sjaldan, aðeins vor og haust. –
Hann er fasmikill að vanda og fótastokkinn lemur.
Hann er fullur gamli maðurinn, og syngur hvíldarlaust.
3.
„Nú er hann enginn skrælingi hann Skyttudals-Finni,
hann skuldlaus er við kaupmanninn, já sjálfan djöfulinn.
Og einhvers staðar hefir hann í hnakktöskunni sinni
heila flösku af brennivíni. – Áfram Skjóni minn!
4.
Þeir eru ekki margir sem eiga skuldlaust kotið
og áttatíu rollur og jarpan trússahest,
sem fá sinnar gæfu – eða gæfuleysis notið.
Það er gaman að vera fullur, það skil eg manna best . . . “
5.
En glaður drykkjusöngurinn heyrist heim að bæjum,
svo hundar stökkva geltandi fram í bæjargöng.
Í hverri gluggasmugu eru krakkarnir á gægjum,
þau kannast flestum betur við þenna glaða söng.
6.
Er kemur hann í tröðina er trúss á öðrum klakknum,
og taglbandið er slitið, – af klárnum snarast senn –
og álagið er tapað og ístaðið frá hnakknum,
og önnur gjörðin horfin, – en taskan lafir enn.
7.
Þessi aldni heiðabóndi, sem í stormum hefur staðið
og stritað og glímt hinar þyngstu þrautir við,
hann ríður á þessu kvöldi eins og höfðingi í hlaðið,
og hendir sér af baki – að óðalsbænda sið.
8.
Því í kvöld er hann glaður, nú er sérhver sorg í banni,
og sólskinsbjart um hverja hugsun þessa snauða manns.
Hann er fullur, segja börnin, og fagna komumanni,
því Finni gamli er vinsæll og kvæðalögin hans.
9.
Í föðurgarði mínum var hann forðum góður gestur,
þótt gæfuleysið skini út um dökku augun hans.
Af kvæðamönnum öllum var hann kannski allra mestur,
og kannski var hann mestur af skáldum þessa lands . . .
10.
Hann var fátæktar og þrældómsins brennimarki brenndur,
og bættar voru flíkurnar og höndin þreytu-kreppt,
en það er engin nýlunda um heiðabóndans hendur,
þær hafa flestar drengilega við örbirgðina kreppt.
11.
En mörgum fannst, að sorg og gleði söng hans uppi bæru,
og seiður jökulánna byggi í kvæðalögum hans, –
að örlög Skyttudalsins og vonir allar væru
í vísum þessa drykkfellda bónda og kvæðamanns.


Athugagreinar

Árni gersemi var frægur kvæðamaður meðal Húnvetninga, fæddur á Mörk á Laxárdal, ólst upp á hrakhólum, var lausingi framan af ævi en festi ráð sitt, fastnaði sér konu og bjó í Skyttudal til æviloka. Lést um sextugt, árið 1918. Árni lagði af allan drykkjuskap eftir að hann stofnaði heimili í Skyttudal en líkleg fyrirmynd er hann skáldinu í þessu ljóði.