Veislan í Hólabæ | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Veislan í Hólabæ

Fyrsta ljóðlína:Í Hólabæ er sumblið sett
bls.26-27
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Í Hólabæ er sumblið sett,
svigna af vistum borðin öll.
Sveitakarlar þjóra þétt, –
þekkja engin veisluspjöll.

Bóndinn einn er orðafár,
orðinn löngu hærugrár,
– þekkir lífsins sviða og sár.
2.
Enginn skeytir hót um hann, –
hann, sem veitir, gleymdur er –
konan honum einum ann,
á sér þögla samúð ber.

Hrynja eins og högl um brár
húsfreyjunnar björtu tár.
Bóndinn einn er fölur, fár . . .
3.
Dunar skáli af drykkjusöng,
daglangt veislan standa skal.
Nóttin verður nógu löng
og næðissöm í Heljardal. –

Í Hólabæ býr harmur sár,
húsfreyjan með grátnar brár:
Bóndinn – hann er bleikur nár.


Athugagreinar

Vefsýslumanni er ókunnugt um tilefni ljóðsins en Hólabær var hjáleiga frá Gunnsteinsstöðum en er nú aðalbýlið. Þetta eru bæir í Langadal í nágrenni við æskustöðvar skáldsins, Hvamm í Langadal.