Vor í blænum | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vor í blænum

Fyrsta ljóðlína:Ég opnaði alla glugga
bls.17
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Ég opnaði alla glugga
sem unnt var á gamla bænum
því vorylur vakti í blænum
og vorið á enga skugga.
2.
Þó voru nú enn að verki
þær vetrarins hljóðu nætur
sem höfðu í hjartarætur
sín helköldu skorið merki.
3.
Sem væri þar ennþá vetur
var von minni þungt um sporið.
Ég veit, það er aðeins vorið
sem vermt hana að nýju getur.
4.
Nú inn bar um opinn glugga
þess yl um mín húsakynni.
Og bjart varð þar aftur inni
er áður ég sat í skugga.