Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Land og þjóð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Flokkar

Allt  (1291)
Afmæliskvæði  (11)
Ástarljóð  (10)
barnagælur  (1)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (13)
Ferðavísur  (3)
Gamankvæði  (18)
Háðkvæði  (8)
Heilræði  (1)
Hestavísur  (2)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (8)
Húnvetningar  (7)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (3)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (48)
Oddi  (1)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Sálmur  (2)
Skáldsþankar  (44)
Strandir  (2)
Söguljóð  (11)
Söngvamál  (1)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (4)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Land og þjóð

Fyrsta ljóðlína:Hljóðs ég bið svo heyrast megi
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1950

Skýringar

Neðan við ljóðið er skrifað  Húnvetningur en þess er ógetið hvar vísnasafnari fékk ljóðið, trúlega frá höfundi sjálfum, sem ólst upp í Þverárdal en SigHalld. vísnasafnari ólst upp í Svartárdalnum og í Selhaga, næsta bæ við Þverárdal.
1.
Hljóðs ég bið svo heyrast megi
hljómar bragur nýr og forn.
Burt frá glaumsins breiða vegi
býð ég ykkur stundarkorn.
2.
Inn til heiða, upp til fjalla
unir heilög fegurð sér
himinbláma og hvíti mjalla
hrifnum augum lítum vér.
3.
Eitthvert hulið afl oss dregur
upp í blámans víða kór.
Æskan hvikar ei þó vegur
ærið brattur sé og mjór.
4.
Fram skal leita, í horfi halda
hika síst né undan slá.
Í miðjum hlíðum má ei tjalda
marki settu er skylt að ná.
5.
Upp á bláum, bröttum tindum
blikar hugljúf sólarglóð.
Brosir við í björtum myndum
byggðin, sagan, land og þjóð.
6.
Líttu yfir landið bjarta
lof sé þeim er gaf þá sýn.
Drottinn andi á þitt hjarta
eilíf hrifning verði þín.
7.
Ljóma gullnir sólar salir
sumardísin milda hlær
brosir grund og grónir dalir
glitrar heiðarlindin tær
8.
Vorsins strengir viðkvæmt hljóma
vekja æsku hreina þrá
Blærinn svífur, söngvar óma
svellur lífsins bylgja há.
9.
Bjartar lindir blárra strauma
blika yfir fjallasveit
auðlegð, fegurð, æskudrauma
eiga hérna vígðan reit.
10.
Baðmur fjalla blár og hvítur
baðar sig í himinlind
sem að hvelfir undra ítur
yfir dýrri helgimynd.
11.
Æskuvors og draumadrottning
dýrlegt hjalar töframál.
Finnurðu ekki frið og lotning
fara um alla þína sál.
12.
Undrafegurð augað gleður
upp til fjalla og niður um sand.
Blærinn andar, báran kveður
bjart og hlýtt og víðsýnt land.
13.
Látum ófleygt augað líða
yfir tímans breiða sjó.
Minnumst löngu liðinna tíða
líf er glæstri kynslóð bjó.
14.
Minnumst Ingólfs Arnarsonar
er hér fyrstur reisti byggð.
Fáður dýrri fremd alls konar
fyrirmynd í hreysti og dyggð.
15.
Hér bjó Egill sigurslyngi
sem að víða fór með rausn
og sem kvað af andans kynngi
óðdauðlega Höfuðlausn.
16.
Njáll var einn af Íslandsmögum
andans kempa hugarfróm
Vildi stýra landi að lögum
leiddi í gildi Fimmtardóm.
17.
Kjartan leik við konung þreytti
kappi sem að mestur var.
Karlmennsku og kænsku beitti
hvergi lægra hluta bar.
18.
Gestur spaki, Grettir sterki
Gunnar, Héðinn, Snorri, Kár
eiga tignuð afreksmerki
anda og handar þúsund ár.
19.
Margar bjartar myndir klæða
minning okkar forna þings.
Ennþá geymist óbreytt ræða
Einars spaka Þveræings.
20.
Þegar ógnar þjóðarvoði
þarf að hugsa málið rétt
Ljósvetninga vitur goði
vörðu hérna hefur sett.
21.
Tign og yndi aldrei flúði
okkar dýra kvennaval:
Helgu fögru og Harðar brúði
hér ég fyrsta nefna skal.
22.
Margar konur kærleik sýsla
kalda milda sektarþraut
Auður fylgdi í útlegð Gísla
urðar manna ramma braut.
23.
Enn ótal margra að minnast
manna og kvenna er bjuggu hér
Nöfnin mætu munu geymast
meðan heimur byggður er.
24.
Nú er fornu glatað gengi
götudrengja fjölgar lið.
Leikið er á lága strengi
lögum réttum týnum við.
25.
Sundrungin af vegi oss villir
valdastreita oss leikur grátt:
Förgum öllu er friðnum spillir
frelsismerki reisum hátt.
26.
Svo mun herma sagan fróða
sannan vísdóm hverjum oss.
Friðurinn er fjöregg þjóða
frelsið lífsins mesta hnoss.
27.
Verkaefnin vantar eigi -
vinnum lands og þjóðarhag.
Ræktum, byggjum, ryðjum vegi
ræktum eigið hjartalag.
28.
Áþján tísku, allt hið lága
eyða úr hugans ríki ber
svo að megir finna og fága
fegurðina í sjálfum þér.
29.
Brjótum af oss alls kyns helsi
iðkum frjálsra manna ráð
Bræður, systur, frið og frelsi
fórnum lífsins stærstu dáð.
30.
Frelsisröðull rísi blíður
réttlætið það taki völd.
Þá mun aftur land og lýður
líta nýja frægðaröld.
31.
Fósturjörð sem líf oss léði
lifir hugum vorum í
rík af sorg og sigurgleði
söngvamáli og vopnagný.
32.
Þetta land á okkur alla
ást og hreina barnatryggð.
Munarblíða meyjan fjalla
móðurjörð og feðrabyggð.