Vilhjálmur á Brandaskarði | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vilhjálmur á Brandaskarði

Fyrsta ljóðlína:Hann bóndi var
bls.45-46
Viðm.ártal:≈ 1975

Skýringar

Hann bóndi var
1.
Hann bóndi var
sem braglist ól
í bjartri sál,
svo fram á tungu
féll í straumi
fagurt mál.
2.
Hann átti strengi
er ætíð þráðu
andans flug.
En náði ekki
að njóta sín
með næman hug.
3.
Því það var margt
sem þurfti að gera
og þræla við,
svo sjaldan veittist
sælustund
með sálargrið.
4.
En samt var ort
og sótt um marga
sigurslóð,
er andagiftin
ól og fæddi
af sér ljóð.
5.
Þau blóm sem uxu
í brjósti hans
við bragsins yl,
þau færðu gleði,
frið og huggun
fjöldans til.
6.
Þau veittu anda
og vitund margra
von og fró.
Því samúð hans
var heil með þeim
sem harmur sló.
7.
Ég veit að marga
vermdi það
sem Villi kvað,
því vorið bjó
í hugsun hans
og hjartastað.
8.
Og lengi mun
því ljós að sjá
við lágan garð,
sem varpar bliki
björtu og hlýju
um Brandaskarð.