Vor | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra
1.
Brosir himinn blár og hlýr,
burt er allur snærinn.
Eru að leika ævintýr
úti Sól og Blærinn.
2.
Hversu ´ann líka vel til vann,
vegu hlaupinn langa,
veit eg sólin hefur hann
heitan kysst á vanga.
3.
Veit hann ráð að vekja skraf
vötnum, giljum, fossum.
Miðlar heimi öllum af
yl frá hennar kossum.
4.
Vakti ljúfan lækjanið,
lokkaði burtu snjóinn.
Blómum er að ýta við
út um tún og móinn.
5.
Vakin blómabörn eg finn
brums í hlífum prúðum,
glöð að rétta glókoll sinn
grænum upp úr dúðum.
6.
Sól við móðurhjartað hlýtt
hlúir góðu lagin.
Kolla rjóða kært og blítt
kyssir „góðan daginn.“
7.
Verður kaldur hress og hlýr,
hrumum léttast sporin.
Aldagamalt ævintýr
alltaf nýtt á vorin.