Eggert Ólafsson 1726–1768
TVÖ LJÓÐ — SJÖ LAUSAVÍSUR
Eggert var fæddur í Svefneyjum í Breiðafirði. Hann lærði í Skálholtsskóla og nam síðan heimspeki við Hafnarháskóla. Að því loknu hóf hann nám í náttúrufræðum en lagði jafnframt stund á aðrar greinar, svo sem málfræði, lögfræði og búfræði. Hann ferðaðist um Ísland á árunum 1752–1757 ásamt Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, til að rannsaka náttúrufar og landshagi. Segir frá niðurstöðum þeirra rannsókna í ferðabók þeirra félaga Reise igiennem Island I–II sem kom út í Sórey 1772 en hefur seinna komið út í íslenskri þýðingu. MEIRA ↲
Eggert var fæddur í Svefneyjum í Breiðafirði. Hann lærði í Skálholtsskóla og nam síðan heimspeki við Hafnarháskóla. Að því loknu hóf hann nám í náttúrufræðum en lagði jafnframt stund á aðrar greinar, svo sem málfræði, lögfræði og búfræði. Hann ferðaðist um Ísland á árunum 1752–1757 ásamt Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, til að rannsaka náttúrufar og landshagi. Segir frá niðurstöðum þeirra rannsókna í ferðabók þeirra félaga Reise igiennem Island I–II sem kom út í Sórey 1772 en hefur seinna komið út í íslenskri þýðingu. – Eggert var skipaður varalögmaður sunnan og austan á Íslandi 1767. Sama ár kvæntist hann frændkonu sinni, Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Höfðu þau dvalið um tíma hjá systur hans og mági, Rannveigu Ólafsdóttur og Birni Halldórssyni, í Sauðlauksdal og hugðust nú hefja búskap á Hofstöðum á Snæfellsnesi. Drukknuðu þau hjón í Breiðafirði á leiðinni þangað á vordögum 1768. – Eggert var eldheitur fylgjandi hinnar nýju upplýsingarstefnu og trúði á að með aukinni þekkingu og upplýsingu landslýðsins væri hægt að efla framfarir og bæta lífskjör. Hann var og fylgjandi búauðgisstefnunni sem taldi landbúnað undirstöðuatvinnuveg þjóða og hann bæri því að efla sem mest. – Eggert orti allnokkuð og ber þá gjarnan fram hugsjónir sínar í ljóðum. Hann yrkir einnig um kosti ættjarðarinnar og um allt það sem hún hefur upp á að bjóða. ↑ MINNA