[Kristín var fædd í Þverárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Sólarhrings gömul var hún borin út að Mjóadal til Guðríðar föðurömmu sinnar, sem var þar í húsmennsku. Hjá henni var Kristín til sjö ára aldurs. Foreldrar hennar Guðmundur Finnbogason (1863-1913) og Sigríður Jónsdóttir (1870-1949) ógift vinnuhjú í Þverárdal. [Foreldrar Guðmundar voru Guðríður Guðmundsdóttir (1836-1913) og Finnbogi Finnbogason (1840-1889). Foreldrar Sigríðar voru Svanhildur Jónsdóttir (1841-1892) og Jón Pálsson (1843-1922).] Guðmundur flutti vestur á Ísafjörð og giftist þar en Sigríður var áfram vinnukona í Þverárdal. Frá sjö til tíu ára aldurs var hún ýmist hjá föður sínum á Ísafirði eða hjá vandalausum í ýmsum störfum s.s. við að passa börn og kvíaær. Tíu ára gömul var hún tekin í fóstur af hjónunum Sigríði Björnsdóttur og Stefáni Guðmundssyni á Kirkjuskarði í Laxárdal fremri. Þau veittu henni gott atlæti og menntun og sendu hana í Kvennaskólann á Blönduósi.
Hún giftist Helga Magnússyni frá Núpsöxl á Laxárdal fremri árið 1918 og átti með honum sex börn: Egill (1919-2003), Guðríður Bjargey (1921-2019), Þórólfur (1923-2019), Guðmundur (1926-2017), Kristín f. 1927, María f. 1933, Stefán Sigmundur (1934-2017) og Sigurjónu Valdísi f. 1935. Þau bjuggu í Núpsöxl til vors 1935 en fluttu þá að Tungu í Gönguskörum.
Vinnan var þrotlaus og nýtni og sparsemi komu sér vel. [Kristín var kjarkmikil og úræðagóð og Helgi fjárglöggur ráðdeildarmaður, traustur og ábyggilegur. Kotið var lítið, skepnurnar fáar og börnin mörg. Tekjurnar voru drýgðar með vegavinnu, skipavinnu og öðrum ígripum utan heimilis og á milli árvissra anna.] Kristín gekk í öll verk jöfnum höndum, bæði inni og úti en mannlíf á Laxárdal var gott og félagslíf í blóma. Frá 1910 til 1940 voru vakningar- og mótunartímar. Þá var búið á fjölda jarða á Laxárdal fremri og var mannmargt á sumum. Þar var öflugt ungmennafélag sem m.a. gaf út handskrifað blað sem gekk bæ frá bæ. Blaðið hét „Morgunroði“ og bæði karlar og konur lögðu því til margbreytilegt efni í það: frásagnir, erindi, skáldskap, bæði í ljóðum og lausu máli, gátur í ótal gerðum og formum og margt fleira. Sömuleiðis herjaði þar um dalinn sveitablaðið „Víkingur“, sem margir skrifuðu í. Á þeim tíma sem Kristín átti heima á Laxárdalnum ólust þar upp ýmsir nafnkunnir einstaklingar: Halldór H. Snæhólm og Auðunn B. Sveinsson á Sneis, þar sem Sveinn frá Elivogum bjó seinna, Hjálmar Þorsteinsson á Mánaskál, sem kenndi sig við Hof á Kjalarnesi, Rósberg G. Snædal sem ólst upp á Vesturá, Ingvar Pálsson á Balaskarði og fleiri.
Kristín í Núpsöxl lét baslið ekki buga sig.
Mæddi raun við mold og grjót,
mátt og þor í vöðva sendi.
Efnið vafðist oft um fót
andinn þá til flugs sér renndi.
[Börnin voru bráðger til náms og verka. Þau gengu í farskólann í hreppnum, sem var haldinn skamman tíma í senn á bæjunum á Dalnum og þá gengu börnin á milli bæjanna. Námið fór að mestu fram heima og hlaupið í snúninga meðfram.]
Vorið 1935 bjuggu þau Núpsaxlarhjón alla búslóðina upp á hesta sína, settu á klakk og fluttu norður að Tungu í Gönguskörðum. Fjarlægðin var sjö klukkustunda lestagangur um troðninga og tæpar götur, Kattarhrygg og Kamba.
Þau lentu í búsifjum strax á fyrsta árinu þegar flest fé þeirra fennti í Gönguskarðsá [?] en með seiglunni tókst að fjölga fénu á næstu árum og efnahagurinn rýmkaði, jörðin var ræktuð og girt og börnin komust til manns. Þau Kristín og Helgi skildu árið 1949 þegar yngsta dóttirin var komin yfir fermingu. Fyrst um sinn fór Kristín út á vinnumarkaðinn til þeirra starfa sem henni bauðst en svo flutti hún til Reykjavíkur þar sem nýr þáttur hófst í lífi hennar. Síðustu áratugina bjó hún ásamt Halldóri Þorsteinssyni frá Grýtubakka í Eyjafirði í litlu húsi upp við Rauðavatn, þar sem þau gátu haft hænur og ræktaði kartöflur og grænmeti, plantað trjám, setti niður blóm. Kristín gekk í kvæðamannafélagið Iðunni strax og hún kom suður og var virkur félagi á meðan heilsan leyfði.
(Heimildir: Auðunn Bragi Sveinsson, 1983. Kristín frá Tungu. Minning. Íslendingaþættir Tímans, 22. júní 1983; Skagfirskar æviskrár 1890-1910. Útg. Sögufélag Skagfirðinga, 1964-1972; Skagfirskar æviskrár 1850-1890. Útg. Sögufélag Skagfirðinga, Sauðárkrókur 1981-1999; Ásgeir Svanbergsson, 1992. Vigurætt: Niðjatal Þórðar Ólafssonar stúdents og bónda í Vigur og kvenna hans, Margrétar Eiríksdóttur og Valgerðar Markúsdóttur. Útg. Líf og saga; Ari Gíslason og Valdimar Björn Valdimarsson, 1959. Vestfirzkar ættir. Útg. Valdimar Björn Valdimarsson.
↑ MINNA