Sólkonungurinn | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Sólkonungurinn

Fyrsta ljóðlína:Ég er hinn voldugi Ra
Viðm.ártal:≈ 1975
Ég er hinn voldugi Ra.
Um nætur fer ég með
hina hljóðu herskara mína
um hauður, loft og haf.
Sólherir himnanna eru þar á ferð.

Á fornum skrám hinna horfnu tíma
sé ég komandi dag rísa.
Leikbrúður dagsins, leika sinn leik.

Í dag fæðist Birkir
en Bára fór í nótt.
Það verður flogið utanlands í dag
bátar koma inn
og vegur verður lagður.

Úr ómynnisdjúpi koma stundir,
sem voru og eru
sem perlur á bandi
lagðar um dökka lokka.

Blómvarir hvísla um lítil börn
með leifrandi augu,
sem demantar logi
hlaupandi um götur með ærsl og læti.

Á bláhæðum berjalandsins
blána varir í fögru brosi
milli rjóðra kinna.

Í skurði skýst lonta
í skugga milli steina.
Tvö ung augu stara
í von um veiði.
Ungir drengir leika sinn leik,
það eru hinir komandi tímar.

Bráðum dvínar dagur
og hin hljóða nótt
opnar faðm sinn
öllum hinum þreyttu
börnum jarðarinnar.

Þá leggur hinn voldugi Ra
upp með sinn vængjaða her
og sköpun hins nýja dags
hefst á ný.