Mig dreymir heim | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Mig dreymir heim

Fyrsta ljóðlína:Mig dreymir heim í dalinn minn
bls.109 111
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1918-1921
Flokkur:Skáldsþankar

Skýringar

Úr syrpunni „ Heima “ 1918-1921, hugurinn leitr á heimaslóðir....
Mig dreymir heim í dalinn minn
og dvel þar vorbjart kvöld
meðan sólin vefur í vestrinu
sín vafurlogatjöld
og blómin drekka daggirnar
og dagurinn missir völd.

Mig dreymir heim í dalinn minn
og dýrgripi, er þar eg á -
gamlar minjar, er lyftast sem leiftur
landi og mönnum frá. -
Hver hóll er þar bjartur af bersku minni
og brosandi af gleði hvert strá.

Þar rétti eg fyrst móti röðlinum hönd
og reikaði barnsspor mín þar
og dreymdi fyrstu draumana mína
um daginn og stjörnurnar,
spurði þar fyrst um engla og eilífð,
sem enginn gat sagt mér, hvað var.

Eg kleif þar minn fyrsta klettastig
og komst upp á hæsta tind
og horfði með lotningu landið á,
sem lá eins og höggvin mynd
með fjöllum, bæjum, völlum og vötnum,
vonum, starfi og synd.

- Þar drakk eg fyrst elskunnar ilmandi veig
og eld hennar lék mér við,
vakti fyrstu vonirnar mínar
við hennar söngvaklið -
flúði til hennar flóttamaður
og fekk þar alltaf grið.

Þar bauð mér gleðin sinn brosandi faðm
og bar mig langt og hátt
sem fagnandi svan yfir sólgylltum tindum
syngjandi dag og nátt.
En lokkandi hljóma lagði að eyrum:
lífsins hörpuslátt.

Og sorgina fann eg þar fyrsta sinni
falla sál mína á.
- Hljóð sem dauðinn og djúp eins og hafið
duftinu lyfti hún mér frá.
- Eg fann hana gullsindri göfginnar
yfir grátna sál mína strá.

Þar liggja í moldu lítil bein
úr litlum dreng, sem eg á
einhversstaðar í umsjá guðs
á eilífðarvegunum blá,
sem fæddist og dó eins og geislaglampi
guði sjálfum frá. -

- Mig dreymir heim í dalinn í kvöld
og dvel við minningar,
fylli mitt hjarta af æskuangan,
sem eitt sinn streymdi þar -
ylja mér við þann eld, sem ljóma
æsku minni bar.