Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Þakkargjöld til Þórunnar Hjörleifsdóttur | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Þakkargjöld til Þórunnar Hjörleifsdóttur

Fyrsta ljóðlína:Hljómi þökk! Hljómi hrós
bls.144-145 bindi 2
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915

Skýringar

Þórunn Hjörleifsdóttir tók við ljósmóðurstörfum í Svarfaðardal 1880 og sinnti því í hartnær 35 ár eða rúmlega það. Hún var dóttir séra Hjörleifs Guttormssonar prests á Tjörn og konu hans Guðlaugar Björnsdóttur. Þórunn þótti mikilhæf og naut óvenjulegrar hylli sveitunga sinna.
Jón mælti fyrir munn Svarfdæla í kveðjuhófi þegar Þórunn hætti störfum.
Hljómi þökk! Hljómi hrós
þér, sem hugsnjöll ævi alla
aldrei hug né mund lézt falla
við að gefa lífi ljós.
Hverjum skyldi lofgerð lýða
líknstarf þakka nú og fyr,
ef ei þeim, sem annast fyrstir
lífs vors hyr?

Hraustir menn, hugdjörf sprund,
skrýddust fyrstu fötum sínum,
fávís, klökk í örmum þínum,
ævi sinnar sigurstund.
Þúsund sinnum þínar hendur
þerrað hafa veikan lim,
þann, sem nú með þreki klýfur
lífsins brim.

Þó að land syrti og sæ,
geysist hríð, svo hrikti í fjöllum,
hrannir freyddu á klettastöllum,
fært væri engum út úr bæ. -
Þér var sama gleði að gegna
göfugu starfi, dag og nótt.
Það gat aldrei íslenzkt veður
deyft þinn þrótt.

Um þitt líf aldrei stóð
frægðarlogans leifturalda, -
lágt er oft um þá, sem gjalda
mætast gull í mannlífssjóð.
Verkin þín í veikra hreysum
varpa þó á hjartans haf
líknarinnar göfga, fagra
geislastaf.

Því skal nú þakkargjöld
greiða hér af gömlum, ungum,
glymja þér af strengjum þungum,
heiðursfljóð með hærufald.
Meðan nokkur móðir elur
manni barn í vorri sveit,
skal þín minning lifa og lýsa
ættarreit.