Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Minning | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Minning

Fyrsta ljóðlína:Svefni er sofnaður værum
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1982

Skýringar

Minning um Sigurjón Kristjánsson frá Brautarhóli í Svarfaðardal. ( 1907-1982 )
Svefni er sofnaður værum,
Sigurjón að norðan.
Góður og gegn var drengur,
grandvar og einkar traustur.
Bjó hann búi sínu
að Brautarhóli lengi.
Erjaði ættarslóðir
og ávann hylli.

Vaskur þótti til verka.
Vinnusamur og prúður.
Góðvild var honum gefin
og Guði hann treysti.
Eiginkonunni unni
af einlægu hjarta.
Börnunum besti faðir
og brautargengi veitti.

Heilsunni tók að hnigna,
er hallaði degi.
Varð því búi að bregða
og burtu að flytja.
Angur að honum sótti
er örlögin bitur
sviptu hann sveitfestinni
í Svarfaðardalnum.

Síðar á suðvesturlandi
sagan var lengst af rituð.
Unnið uns orkan var þrotin
og aldurinn mæddi.
Veikindi vökuna styttu
í veröldu hérna.
En ljós hinnar lifandi trúar
lýsti að handan.

Lífið Guð okkur gefur,
gleði þess og harma.
Styrkinn til að stríða
og standast élin mörgu.
Allra þó kemur að kveldi.
Kallið berst að ofan.
Andinn til upphafs síns hverfur.
Eilífðin hljóðlát bíður.

Sundur brast silfurþráður.
Söngur lífs hér að baki.
En minningar mætar lifa
um mann í starfi og þrautum.
Tryggur og trúr í öllu.
Tildurslaus í háttum.
Besti vinur míns bróður
á björtum æskunnar dögum.