Í minningu Davíðs | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Í minningu Davíðs

Fyrsta ljóðlína:Hver færði svo mikla speki í lítið ljóð
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:1995
Flokkur:Afmæliskvæði

Skýringar

Í tilefni af 100 ára afmæli Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi!
Hver færði svo mikla speki í lítið ljóð,
hver lyfti svo djúpri visku í fáum línum?
Svo hreina demanta daglega færði þjóð,
sem Davíð frá Fagraskógi í ljóðum sínum.

Hann talaði skírast trúar og kærleiksmál,
túlkaði jafnan viðhorf liðinna alda.
Færði svo mörgum innsýn í eigin sál,
uppskar þökk og virðingu hundraðfalda.

Hann mat og skildi smælingjans drauma og dyggð,
dáði af alhug veikasta gróður jarðar.
Það skín hvergi ljós svo skært yfir nokkra byggð,
sem skáldverk Davíðs á hlíðar Eyjafjarðar.

Þó hann sé liðinn og lagður þar djúpt í svörð,
lengi mun andi hans geisla í skráðum línum.
Og fylla allt yndi sem fuglanna syngjandi hjörð,
um framtíð með þjóðinni hann lifir í verkum sínum.

Þökk sé þeim Drottni sem þjóðskáldið okkur gaf,
hann þvílíkar perlur lagði í skáldverka sjóðinn.
Frá fæðing hans -  öld er nú horfin í tímans haf,
með heiðri og þökk hans minnast skal íslenska þjóðin.