Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Amma mín | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Amma mín

Fyrsta ljóðlína:Ég man er ég barn stóð við stokkinn þinn,
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Eftirmæli

Skýringar

Þetta ljóð samdi Birna um föðurömmu sína, Önnu Kristínu, sem var henni mikils virði í uppvextinum.
Ég man er ég barn stóð við stokkinn þinn,
þú straukst yfir hrokkna kollinn minn
og baðst Guð að blessa mér daginn.
Bæn þín var flutt í bjartri trú
að biðja svo heitt mér kenndir þú,
léttfætt þá leið ég um bæinn.

Bærinn minn heima á hólnum var,
það hópa sig um hann minningar
frá bernskunnar björtu dögum.
Ennþá ljóma á leið mína slá
þær lifandi myndir sem hlaut ég frá
leikjum og söngvum og sögum.

Er sólin vermdi um vordægrin löng,
vinaljóð fuglinn við gluggann þinn söng
og blóm skreyttu bala og teiga,
þú bentir á Skaparans mikla mátt,
hvað mannshöndin gæti fátt og smátt,
hve gott væri Guð sinn að eiga.

Er vetrarins frostharka kreppti kló
og kynlegum rósum á glugga sló,
var yl hjá þér amma að finna.
Og sætt var á kvöldin að sofna við
syngjandi, þaggandi rokksins nið
er sastu sveitt við að spinna.

Þegar mér draumarnir bönnuðu blund
um biksvarta skammdegis næturstund
ég leitaði að huggun og hlýju.
Þinn faðmur mér var þá sem frelsandi sól
hann færði mér öryggi, birtu og skjól
og sæl þar ég sofnaði að nýju.

Þú áminntir mig svo alla stund
að ávaxta skyldi ég mitt pund
ástríki öðrum að sýna.
Að græða þjáninga og sviða sár,
svita og harma þerra tár
og láta þar ljósið mitt skína.

Þökk sé þér amma mín, alla tíð
öll er þín myndin fögur og blíð
sem birtist frá bernskunnar degi.
Ennþá kertið þitt birtu ber
í bænum heima sem lýsti mér,
það ljómar upp lífs míns vegi.

Hvar sem að liggur svo leiðin mín
uns lífsins hérvistarstundin dvín
ég minning skal mæta geyma,
því björtust og heitust og best er sú
bænin, sem forðum mér kenndir þú
er stóð ég við stokkinn þinn heima.