Á fimmtugsafmæli verkamanns | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Á fimmtugsafmæli verkamanns

Fyrsta ljóðlína:Þeir, sem erja alla daga
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1963
Flokkur:Afmæliskvæði
Þeir, sem erja alla daga,
ýmis störf til lands og sjávar,
eiga þakkir ekki litlar,
oft þó gleymist þeirra saga.
Verkamannsins höndin hrjúfa,
hefur mörgum steini bifað,
sléttað leið um langa vegu,
lagt á herðar byrðar þungar.

Árar hafa einnig knúið
út á mið og fiskinn dregið.
Flutt á land og fellt í spyrður,
flakað, saltað, hert og þurrkað.
Færðu þannig björg í búið.
Bitu oft í skjaldarrendur
til að sigra á sollnum ægi
svikul veður, en margir féllu.

Í dölum fram var drótt að verki
daga og jafnvel fram á nætur
til að heyja og hlaða tóptir,
handa fé um langan vetur.
Oft var erfitt úti að ganga
í iðulausum norðangaddi.
En bjarga þurfti búi í vanda
og bágstöddum að hjálpa í nauðum.

Gleymast vill að geta í sögum
gildi traustra verkamanna.
Þeirra, er vinna hraustum höndum
í höfn, á sjó um dreifðar byggðir.
Aðrir hljóta arðinn meiri,
einnig sæmd og vegatillur.
En fjalladrottning faðmi vefur
feita og snauða á lokadægri.

Eitt í dag er okkar á meðal,
afmælisbarn í Hafnarfirði.
Hálfa öld það hefur að baki.
Hörðu starfi lengst af þjónað.
Grafið menn og göturæsi,
gætt að sauðfé, kýrnar fóðrað.
Heimili sínu happadrengur
og hringjari í þjóðkirkjunni.

Inga, núna einn og annar
árnar heilla á merkisdegi.
Þakkar honum átök ýmis,
eitilhörku og vinnugleði.
Við sem hérna inni erum
óskum þér og hendi þrýstum,
alls hins bezta um ævidaga,
auðnu og gengi í framtíðinni.