Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Á Sökkustekkjarhæð | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Á Sökkustekkjarhæð

Fyrsta ljóðlína:Í sólu glitrar Svarfaðardalur
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1961

Skýringar

Síðla sumars 1961 kom Eiríkur í dalinn á berskuslóðirnar.
Gekk upp á Sökkustekkjarhæðina, en þaðan er útsýni fagurt og vítt.
Þá varð þetta ljóð til.
Í sólu glitrar Svarfaðardalur
samgleðst hugur minn.
Eitthvað hlýtt og undurfagurt
umhverfis mig finn.
Eftir árin alltof mörgu
er ég staddur hér.
Ótal staðir eru vinir
og þeir fagna mér.

Mínum fyrir sálarsjónum
sé ég lítinn dreng,
sjálfan mig á yngstu árum
úti hleyp og geng.
Oft er hryggur, oftar glaður,
örhratt breytist lund.
Ó að ég væri aftur orðinn
ungur litla stund.

Svarfaðardalur, Svarfaðardalur
sveitin töfraglæst.
Í mínum augum alla vega
allra sveita stærst.
Þökk fyrir árin er ég dvaldi
í æsku minni hér.
Ljómi frá þeim liðnu dögum
lýsir ennþá mér.