Í minningu Björns á Þverá | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Í minningu Björns á Þverá

Fyrsta ljóðlína:Í dalnum þar sem gamall skógur grær,
Viðm.ártal:≈ 1975
Í dalnum þar sem gamall skógur grær,
og gulvíðirinn sprettur fyrst á vorin,
áin liðast lygn og silfurtær
þú lekst þér barn barn og áttir fyrstu sporin.
Þar leistu fyrst hið fagra sólarskin
og fannst þess mátt um æðar þínar streyma.
Þú eignaðist í æsku margan vin,
og alltaf fannst þér best að vera heima.

Þar rísa fjöll í fjarska brött og há
fagurgræn með snjó á efstu tindum.
Hvítan jökul ber við loftin blá,
björkin vex hjá tærum fjallalindum.
Frá brjóstum jarðar leggur ástaryl
allt er kyrrt og laugað döggum hreinum.
Þá er gott að vaka og vera til
er vorið söng í ungum skógargreinum.

Þú festir rætur djúpt í dalsins mold,
þar dunar fljót og anga grænir hagar.
Sú taug sem batt þig feðra þinna fold,
feyskist ei þó líði ár og dagar.
Bóndans starf var stærsta hugsjón þín
þó stöðugt ynnir mest á öðru sviði.
Að hjálpa öðrum þegar þörf var brýn,
þó var óvíst hvort þér meira byði.

Verkin tala, vitna um hagleik þinn,
vönduð, fögur, traust á allan máta.
Þar unnu saman hönd og hugurinn
svo hljótt varð oft um þá sem mikið láta.
Þú byggðir hús og gerðir gömul ný
og gafst þér tóm að fegra allt og prýða.
Því verður sérhver minning mild og hlý
og máist aldrei, þá er tímar líða.

Svona liðu árin eitt og eitt
og ekki voru daglaun heimt að kveldi.
Heilsan brast og höndin gerðist þreytt,
en hugur samur, gæddur fórnareldi.
Frá starfsins önn á feðra þinna fund,
var förin gerð sem skilur líf og dauða.
Með vinarhug er þökkuð þér hver stund,
þó með trega horft á sætið auða.