Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Smiðjuljóð | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Smiðjuljóð

Fyrsta ljóðlína:Hann stóð við eldinn bjarma bleikan lagði
Viðm.ártal:≈ 1950
Hann stóð við eldinn bjarma bleikan lagði
um biksvart ris hins lága smiðjukofa.
Með stálsins gneistaflug til gólfs og veggja
grafinn svörtum reyk, sem myrkursvofa.
Með hamar reiddan, hendi kreppta um stálið
hann hóf upp raust og söng við smiðjubálið.

Hann steypti listaverk úr styrkum málmi
með sterkri hönd því hélt í smiðjueldi.
Hann rækti ei störf með fumi eða fálmi
og ferlegt gneistaflug hann eigi hrelldi.
Hann vann með prýði vaskur þegn og djarfur
veitti mörgum lið svo hraustur, þarfur.

Hann stóð við eldinn myrkranna á milli
og mótaði stál uns hendur voru þreyttar.
Þá fann hann hvíld en fárra vina hylli.
Hann fann sitt líf við stálsins eggjar beittar
hann var kóngur, kastali hans smiðja -
Kóngsins tign var verkamannsins iðja.

Hann valdi stálið, málminn mikla sterka
að móta sitt líf því sjálfur var hann hraustur.
Mikill að afli kóngur kraftaverka
knúinn innri þrá svo djarfur hraustur.
Sjálfur steyptur í móti elds og ísa,
eins og stálið, djarft skal eldinn fýsa.

Svo knýr hann hjólið, fýsir fölar glæður
svo funar upp á stundu kolaglóðin.
Það er hann sem hérna ríkjum ræður
hann rifjar upp í kyrrþey smiðjuljóðin.
Mitt líf er stálið brætt í björtum eldi
en brýnt og hert að lífsins hinsta kvöldi.