Lauga og ég | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Lauga og ég

Fyrsta ljóðlína:Við hittumst suður í Sandgerði, ég og Lauga mín
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Daglegt amstur
Við hittumst suður í Sandgerði, ég og Lauga mín,
sannarlega var það langur fundur.
Nú sitjum við hér bæði, alveg sallafín
og sælukofinn okkar heitir Lundur.

Við settum fljótt upp hringa og síðan giftumst við
samt við héldum áfram sælumakki.
Strax á fyrsta ári við þurftum aukalið
okkur var að fæðast fagur krakki.

Og börnin héldu áfram að koma í þennan heim
hópurinn var fallegur í lokin.
Á tuttugu ára bili við tókum á móti þeim.
Þá var Toni greyið orðinn nokkuð hokinn.

En Lauga bar sig betur og sagði í hvert sinn
að blessun ykist vel með hverju barni.
Og vertu alveg rólegur elsku Toni minn,
í þessum börnum blómgast ekta kjarni.

Síðan liðu árin og allt gekk eftir því,
sem Lauga sagði fyrir mörgum árum.
Við höfum verið heppin, það hefur sýnt sig í
að siglt við höfum byr á lífsins bárum.