Eyrarrósin | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Eyrarrósin

Fyrsta ljóðlína:Á eyri við lækinn var lítil rós
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Náttúruljóð
Á eyri við lækinn var lítil rós,
lauguð í daggarúða.
Í sumargleði við sólarljós
hún sást þar í dýrðlegum skrúða.
Hún lagði höfuð við lágan stein
og lífsins naut þarna sæl og ein,
rósin rauða, prúða.

Á morgungöngu við litla lind
í leit að fénu er smalinn,
hann finnur hvergi svo fagra mynd
á ferðum sínum um dalinn
sem þessa indælu eyrarrós
sem opnar krónu við morgunljós.
Á grjóti er fegurð falin.

Hann leitar hennar hvern ljósan dag,
sú lokkandi fegurð kallar.
Lækurinn syngur sinn bjarta brag
sem brosi hann að daggperlum vallar.
Hér smalinn vill búa sér bjartan reit,
þá blómið sitt frjálsast af öllum veit.
Að steininum höfðinu hallar.

En garðstjórinn lötrar hér lækjarslóð
og leitar fagurra blóma.
Hann sér þá  hvar brosir rósin rjóð
í reitnum hans skal hún ljóma.
Úr ríki sínu er rósin færð,
rótin hennar er slitin, særð.
Hún fegurst var frjálsra blóma.

Á Milli steina við múrvegg einn
í mold og rót hennar grafin,
stofninn fær ekki staðið beinn
að sterkum þyrni er hann vafinn.
Að byrgja hana í rökkri er ráðið best
svo rót hún geti í moldu fest.
Það seitlar úr blóminu safinn.

En moldin er rök og súr og svöl
og sárt að rótinni þrengir.
Ein rós á þó ekki á öðru völ
í örvænting krónuna hengir.
Næðingur um hana napur fer
það nístir og særir hvern andblær hér
og dapran daginn lengir.

Og smalanum dapur er dagur sá,
dimman legst yfir árin.
Bundin er angri hans ást og þrá,
augu hans blinda tárin.
Rósin er horfin, sem átti hann einn,
eftir er bara kaldur steinn
og flakandi svörtu sárin.

En vindar þjóta um velli hér
og virða ekki fegurð neina.
Hún sem á vori blómið ber,
er bliknuð á milli steina.
fegur hefur hún fórnað þar
en fræið þroskað til sáningar,
rósin rauða, eina.