Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Til Svanfríðar Gunnlaugsdóttur 90 ára | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Til Svanfríðar Gunnlaugsdóttur 90 ára

Fyrsta ljóðlína:Það var um vor, þú barst í bæinn minn
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:1990
Flokkur:Afmæliskvæði

Skýringar

Til Svanfríðar Gunnlaugsdóttur 90 ára, þann 27. nóvember 1990.
Það var um vor, þú barst í bæinn minn
börnin þín tvö og farangurinn þinn.
Þeyr var í lofti og þelgrátt skýjafar,
það var í byrjun júnímánaðar.

Þögull ég starði og þungur hugurinn
því ert þú að taka, litla bæinn minn.
Hvað hef ég gert, sem mælir þessu með,
það myrkvaði í huga og þyngdi allt mitt geð.

Samt man ég enn, hvað gladdi og græddi vel
er gekkst þú til mín, blítt með hugarþel.
Lagðir þá hönd á koll og mína kinn,
hví ertu að gráta, litli vinur minn.

Eftir þann dag ég mat þig meir og meir
mannkosti, gæsku, trú og fleir og fleir.
Þú vildir alltaf bæta allra böl,
blessunar leita, létta sálarkvöl.

Þröngt var í búi, svona við og við
vonin á Drottinn, styrkti heimilið.
Alltaf var margt, sem angur veitti þá,
ungana að fæða og klæða börnin smá.

Við Kóngsstaðasystkinin, komum oft til þín
þú kærleika sýndir, léttir hugarpín.
Sykur og brauð, þú lést í lófann þá,
léttir oft sút, og þerðir grátna brá.

Hvað það var sælt að koma í bæinn þinn
kaldan með fót og tár á fölri kinn.
Því oft þurftu börn að elta rollusvín,
elg kraps að vaða - já það var ekkert grín.

Þú komst út á hlað og bauðst í bæinn inn,
blessaður komdu, stúfur litli minn.
Þú ættir að hlýja þér, eldhússtóna við,
og eitthvað ég finn að stinga í munngatið.

Kóngsstaðabörnin þér kveðju senda nú
með kærleika og þökk fyrir allt, sem gerðir þú.
Guð þig mun leiða í glæstra landa sýn,
Hann geymir og metur, - kærleiksverkin þín.