Tersína (þríhenda) | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Tersína (þríhenda)

Lýsing: Rétt tersína er ítalskur þríhendur fimm fóta bragarháttur (hver lína fimm stígandi tvíliðir, 11 atkvæði í línu). Kvenrím var tíðast í hættinum til forna
   Kvæði undir hættinum eru að jafnaði rituð þannig að þrjár línur standa saman, tvær hinar síðari inndregnar, eins og sést í meðfylgjandi bragdæmi (stundum er líka höfð auð lína á milli þrennda). Á íslensku skiptast á línur með tveimur stuðlum og einum höfuðstaf, þ.e.a.s. frumlínur og síðlínur standa á víxl, þvert á þríliðaskiptinguna. (Einnig eru þess dæmi að hver þrenna hefjist á tvístuðlaðri línu og er þá sérstuðluð í annað hvert skipti. Sjá t. d. þýðingu Kristjáns Árnasonar á Elskendum Bertolts Brechts. 
     Límifjöldi ljóða undir tersínuhætti er breytilegur þar sem rímið heldur áfram að fléttast eftir sama kerfi, þannig að hvert rímorð kemur fyrir  þrisvar, á tveggja línu fresti. Línufjöldi er þá ávallt þannig að ein lína stendur út af þegar deilt hefur verið í með þremur.
   Frægasta skáldverk á Ítalíu undir hættinum er Gleðileikurinn guðdómlegi (Divina Commedia) eftir Dante og er kvenrím þar ríkjandi.
 Fyrsta og þekktasta kvæði íslenskt undir tersínuhætti er fyrrihluti Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar. Jónas notar ýmist kvenrím eða karlrím og er dreifing þess hjá honum valfrjáls. Í dæminu frá Gísla Brynjólfssyni hér á eftir er rímið hins vegar reglulegt að því leyti að nýtt rímorð er til skiptis einkvætt (karlrím) eða tvíkvætt (kvenrím).  

Dæmi

Í Eyjafirði aldinn stendur reynir
í auðri kleif, í löngum fjalladal,
þar sem að bruna bunulækir hreinir
um bjarta grund úr dimmum hamrasal, 
þar sem að autt er allt og naktir klettar
og aldrei heyrist neinna manna tal;
en ef að vindur hreyfir hríslur þéttar,
þá heyra menn sem væri barna kvein,
og ef af reyni dökkgræn blöðin detta
á dreyrrauðan við viðjarfótinn stein,
þá hættir kvein og kyr þá blöðin lafa,
þó hvíni vindur enn í laufi á grein;
því skylduboði og skuld þau fullnægt hafa.

(Gísli Brynjúlfsson: Reyniviðurinn, I. hluti)

Ljóð undir hættinum