Deprecated: pg_query(): Automatic fetching of PostgreSQL connection is deprecated in /var/www/bragi/ljod.php on line 28
Gautastaðahólmi | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Gautastaðahólmi

Fyrsta ljóðlína:Skein yfir Fljótin sól á sunnudegi
Bragarháttur:Tersína (þríhenda)
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1945
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Formáli Kemps fyrir kvæðinu:
„SKAGFIRSK FRÆÐI NO. 0.
GAUTASTAÐAHÓLMI:
VIÐURSTYGÐ EYÐILEGGINGAR
NÝSKÖPUNARANNÁLL ÁRSINS 1945
Viðburðir úr Fljótum, Stíflu, Siglufirði, og Veröldinni yfirleitt. Meðal annars er hér minnst á Ingeniör Austangarð Skeiðfossrafveituforvaltara, hver að refsaði Stíflunni með vatnsflóði, eins og Drottinn forðum þrívegis hefir áður gert í Austurlöndum. Þá er getið félaga Stalins, hver nú er talinn   MEIRA ↲
Skein yfir Fljótin sól á sunnudegi,
sveipaði þoka margan fjallatind.
Rölti ég fullur fyrirmyndarvegi,
fikraði áfram líkt og drullukind.
Hátt yfir sveitum hrafnar glaðir klaka
í himinblámans - fagurtærri - lind.
Við Skeiðsfoss ýmsir yfir víni vaka.
en vitrir bændur lifa á skaðabótum.
Garður[1] og fleiri gulli að sér raka
gunnreifir enn og standa á sínum fótum,
blásvörtum feldi búnir eins og tröll,
sveitinni reiðir allt frá áramótum. -
Með hnefa reidda hvíta líka mjöll
stara þeir yfir Stífluvötnin bláu,
er streyma nú um sérhvern töðuvöll.
Þaðan má líta byggðabýlin smáu,
brotin og sliguð, nærri sokkin öll.
Ryðgaðir víða landadunkar lágu
laggbrotnir, dreifðir út um sinugrundir.
Líka var fleira svipað er þeir sáu
sérkennilegt þar hlíðarbrekku undir.
Í djúpinu hýrast, hörðum vafin dróma
himinblá stör og fagrir víðilundir.
Þetta er ei framar sveitinni til sóma.
Svona er hverfult lán og yndisstundir.
En síldarkóngar sitja í dýrðarljóma
við Siglufjarðar prúða meyjaval.
Þar eru tún og algræn engi í blóma,
álægja glugghross fram á Skútudal.
Skeiðsfossi og Stíflu eiga þeir að þakka
þokkasæl rafljós nú í hverjum sal
Sungið er dátt við búðarglugga og Brakka,
berfættar meyjar læðast þar á tám.
Aðkomnir sjómenn yfir veiði hlakka,
áfengi kaupa af Bjarna í sölum hám.
Blikar á götu Brakka - meyja - sveimur
berar á stundum lengra en upp að hnjám.
Svífur um loftið sígarettueimur
suður og fram með Steinaflatahlíð.
Virðist þá mörgum guðdómlegur geymur,
er gengur um Fjörðinn seint á óttutíð.
Ekki er dyljast hægt í Hafnarlandi,
Hvanneyrarskál er raflýst Stíflu frá.
Hríngvaðar perur hanga þar í bandi,
hárrauðum lömpum fjallatindum á.
Finnst ei slík prýði á Fósturjarðarströndum,
framkvæmdir eru þó á landi og sjá.

Bændur í Stíflu heldur bíða hel
en hverfa burt af gömlum erfðalöndum,
sem Austangarður, grimmri studdur vél,
gustillur reyrir vatns - og - klakaböndum.
Hugljúfa samt ég sögu Stíflu tel,
situr þar margur núna auðum höndum
og temur ei framar eldishesta ólma
áður sem töddu Gautastaðahólma.

Þar sem að áður akrar huldu völl
andskotans flóð er nú til beggja handa.
Hélugrá líta ennþá Fljótafjöll
framsóknarmenn í stórkostlegum vanda.
Draugarnir flúnir, drukknuð liggja tröll.
Djöfullinn má í hreingerningum standa.
Lágum[2] hlífir hulinn verndarkraftur
Hannesi á Breið þótt tröllin gangi aftur.

- - - - - - - - - -

Hungur og stríð er enn í öðrum löndum,
öreigalýður þar til lítils fær.
Besetinn virðist hann af illum öldum,
er nú í byggðum reiddur vigur skær
af Kósakkaher, sem hamslaus áfram ríður,
hulinn í skít og ryki niður á tær.
Kunnur er margur kommúnistinn fríður
er klárnum stýrir yfir blóðga grund.
Stórvirkur heima Stalin karlinn bíður,
staup af vodka réttir þeim á móti,
sem aftur komast yfir mýrarsund
óskemmdir til hans niður að Volgafljóti.
Skelfist samt aldrei skáldleg hetjan góða,
skálkur þó margur bráðum dauða hóti.
Ánægður heima étur jarðargróða.
Jafnvel þótt Hitler eigi slæma daga.
Þó mun hann gestum betri máltíð bjóða,
Bandamenn þurfa ei yfir neinu að klaga.
Lokið er kvæði. Líði ykkur vel!
Lýg ég ei neinu, þetta er ársins saga.

- - - - - - - - - -

Bundin í rím og skráð sem „Skagfirsk fræði“
skyldurnar kalla, aldrei hefi eg næði.


Athugagreinar

[1] Garður er Östergaard verkfræðingur við Skeiðsfoss. Fyrst þegar hann kom í Fljót, skildi hann ekki Fljótamenn og þeir ekki hann. Eitt sinn báðu þeir mig um að þýða nafn hans á íslensku og gerði ég það fúslega og sagði það þýddi Austangarður. En Austanáttin er aldjöfullegasta áttin í Fljótum og ætlar þar allt [um koll að keyra].
[2] Hannes bóndi á Melbreið er með allra minnstu mönnum, en hann er sá samt, er talar kjark í Stíflumenn svo þeir yfirgefi ekki algjörlega byggðina.