Elskendurnir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Elskendurnir

Fyrsta ljóðlína:Sjá þessar trönur sem í sveigum fljúga
Höfundur:Bertold Brecht
Þýðandi:Kristján Árnason
bls.10. árg. bls. 188
Bragarháttur:Tersína (þríhenda)
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:2012
Sjá þessar trönur sem í sveigum fljúga
og skýjaflóka fast við hlið á þeim!
Þau fylgjast að og hvort með öðru snúa

á brott úr þessum inn í annan heim.
Þau fljúga saman yfir láði og legi
og líða hlið við hlið um víðan geim,

svo trana og ský þar jafna hlutdeild eigi
í sal þess himins sem þau leggja að baki
og hvorugt framar hinu fljúga megi

og hvorugt þeirra eftir öðru taki
en vaggi vindsins sem þau um sig finna
og halda gegn með hljóðu vængjablaki.

Og þótt hann reyni þau af braut að ginna,
þá láta þau á engan veg sig veikja
né mun þá nokkur mein né grand þeim vinna:

Því mega vindar til og frá þeim feykja
um frera norðurs eða suðrið heitt,
er tungl og sól til skiptis skin sitt kveikja,

þau fljúga saman tvö en þó sem eitt.
Þið farið?
– Héðan.
– Hvert þá?
– Ekki neitt.

Þið spyrjið hvort þau hafi notist lengi?
Stutt.
– Og skilja bráðum?
– Býst ég við.

Því elskendum er ástin stundargrið.