| Vísnasafn Skagfirðinga
Vísnasafn Skagfirðinga

Innskráning ritstjóra
AAAA2


Tildrög

Flutt á bændahátíð heima á Hólum 26. júni.
BÓNDI ER BÚSTÓLPI

Rökkurskuggi er nú eigi
yfir þessum júnídegi.
Loftið angar, augun hlæja.
Allt er hér með gleðibrag.
Heiðursvörðum bús og bæja
blessar sólin þennan dag.

Tvöföld gleði, hærri hagur.
Hólastaður. Bændadagur.
Heima í dalinn Hjalta niðja
hreysti er glædd og þroski í lund.
Bóndans þrá að yrkja, iðja,
ást á mold og blómagrund.

Hvað er bóndinn feðra foldu?
Fræ er vex að hlyni af moldu.
Lind er svalar, lífgar, glæðir
lífsins þrótt við sólaryl.
Það er hann er fjöldann fæðir.
Fyrsta stétt, er var hér til.

Erfitt var að brjóta börðin.
Blása lífi í grýtta svörðinn.
Meira þurfti en horfi halda.
Að hærra marki skyldi stefnt.
Dagsins kaup að kvöldi gjalda
kotabúa, var ei nefnt.

Hverjir ljóð til hjarta sungu?
Hverjir gættu frónskrar tungu?
Og Snorra og Ara arfinn vörðu
að þá syrti í landi mest?
Íslands bændahetjur hörðu
hafa staðið vörðinn best.

Er Kári og Frosti mélið mólu
mjallarhvíta og strendur kólu.
Er hafís læsti hinstu sundum
og helköld brynja landið fal.
Hetjur vörðust hraustum mundum
að Hofi, Felli, Gili og Dal.

Er Hekla og Katla hreyttu eldi
og hádagurinn líktist kveldi.
En vorsins gróður varð að deyja
og vásöng kváðu fjöllin há.
Hver sá bóndann frá sér fleygja
föðurleifð og hopa frá.

En margoft brosti blíður dagur,
brúnasléttur, vonarfagur.
Lambamóðir létt í spori
lék um iðgræn beitilönd.
Drottinn gaf með góðu vori
gleði í sál og auð í hönd.

Vorsól kyssti bæinn, búið.
Burtu hretin, vosið flúið.
Þá var kotakóngur glaður.
Keikur stóð hann. Svipur hreinn.
Á velli þéttur, vorlundaður.
Vildi ei skipta um kjör við neinn.

Þannig líða ár og aldir.
Ylrík sumur. Vetur kaldir.
Ýmist lemur öskuhríðin
eða kyssir blíður þeyr.
Ýmist hnípir alhvít hlíðin
eða skreytist fjólu og reyr.

Landið býður enn þá öllum
ástarfaðm með kostum, göllum.
Enginn niðji á sér móður
yndislegri en þetta land.
Er þér ei ljúft að glæða gróður,
græða hraun og eyðisand?

Meðan Hóla signir sólin
og sveina geislar Tindastólinn.
Bændur lands um víða vegu,
verið ljós í ykkar sveit.
Breytið öllu eyðilegu
í yndislegan gróðurreit.