Alfaðir, Alfaðir | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Alfaðir, Alfaðir

Fyrsta ljóðlína:Alfaðir, alfaðir, snertu við heims þessa hjarta
bls.166
Bragarháttur:Fimm línur (þríliður) fimm,- tví- og þríkvætt AAbbA
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915
Ort þegar skáldið var áttrætt
1.
Alfaðir, alfaðir, snertu við heims þessa hjarta.
Hver er nú sagan um ljósið þitt eilífa, bjarta?
>Ef eigi skín
>ásjánin himneska þín:
hræðumst vér helmyrkrið svarta.
2.
Hnötturinn veltist í hamstola guðleysis-æði.
Hvað verður um þessi dýrkeyptu framfara-gæði?
>Ómuna-tíð
>eilífar deilur og stríð,
lífið svo leikur á þræði!
3.
Kristnir og heiðingjar hafa frá aldanna öðli
andanum dauðþyrstum lyft móti skínandi röðli.
>Kristnin er gjörð
>– kærleikans dýrkeypta hjörð
eins og að blóðþyrstum böðli!
4.
Hvar ertu Drottinn? á himnum? í hjörtum vor manna?
Hví er vor andi svo daufur að læra hið sanna?
>Milljón morð —:
>má ei þitt lifandi orð
voðann þann vitstola banna?
5.
Alfaðir, alfaðir, ef þú vilt slá til að græða:
anda vorn snertu með fullvissu himneskra gæða.
>Aldregi lát
>eftir það guðlausa fát
djöful og dauðann oss hræða. —
6.
Efumst ei, Guðs börn, að enn lifi kraftur hins góða;
ofríkið skemmir, en deyðir ei siðmenning þjóða.
>Enn kemur öld
>ofstopans sigrandi völd
Mammons og Móloks hins óða.
7.
Sólkerfa stillir, ger samúð úr stríðum og þrætum,
send oss nú hvíld, svo að friðarins betur vér gætum.
>Eilífa ljós,
>anda vors sigur og hrós,
lýs oss, svo lífskjör vor bætum!
8.
Heilagur andi, lát himneska stormviðrið hvína,
hvítsunnutungurnar aftur í myrkrunum skína;
>fögnið og frið,
>farsæld og allsherjar-grið
Guðsríkið komanda krýna.