Aldamótin | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Aldamótin

Fyrsta ljóðlína:Drottinn, sem veittir frægð og heill til forna
Höfundur:Hannes Hafstein
bls.6-10
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) fimmkvætt AAAA
Viðm.ártal:≈ 1900
Tímasetning:1900

Skýringar

Fyrsta, áttunda og tólfta vísa eru prentaðar í Skólaljóðum.
1.
Drottinn, sem veittir frægð og heill til forna,
farsæld og manndáð, vek oss endurborna.
Strjúk oss af augum nótt og harm þess horfna,
hniginnar aldar tárin láttu þorna.
2.
Dagur er risinn, öld af öld er borin,
aldarsól ný er send að skapa vorin.
Árdegið kallar, áfram liggja sporin.
Enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn.
3.
Aldar á morgni vöknum til að vinna,
vöknum og týgjumst, nóg er til að sinna.
Hátt ber að stefna, von við traust að tvinna,
takmark og heit og efndir saman þrinna.

4.
Fjallkonan unga, yngst af Norðurlöndum,
óminn fær heyrt af dáð frá systra ströndum.
Bíður með þrá, sem ástmey örmum þöndum,
eftir þeim svein, er leysi hana af böndum.
5.
Sólgeislahár um herðar bjartar fellur,
hátt móti röðli fannhvítt brjóstið svellur.
Eldheitt í barmi æskublóðið vellur,
aldanna hrönn að fótum henni skellur.
6.
Kraftinn hún finnur: Öfl í æðum funa,
ólgandi fossa kynjamögnin duna.
Auðlindir sjávar ótæmandi bruna.
Ónotuð frjógnótt beiskju vekur muna.
7.
Veit hún að hún er ei af kotungskyni,
kann og að fóstra marga vaska syni.
Mænir nú hljóð gegn ungrar alda skini:
Á hún þar von á lengi þráðum vini?

8.
Sú kemur tíð, er upp af alda hvarfi
upp rís þú, Frón, og gengur frjálst að arfi.
Öflin þín huldu geisast sterk að starfi,
steinurðir skreytir aftur gróðrar farfi.
9.
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.
10.
Sé ég í anda knör og vagna knúða,
krafti, sem vannst úr fossa þinna skrúða,
stritandi vélar, starfsmenn glaða og prúða,
stjórnfrjálsa þjóð, með verzlun eigin búða.

11.
Íslenzkir menn! Hvað öldin ber í skildi,
enginn fær séð, hve feginn sem hann vildi.
Eitt er þó víst: Hún geymir hel og hildi.
Hlífi þér, ættjörð, guð í sinni mildi.
12.
Hitt er og víst, að áfram, áfram miðar.
Upp, fram til ljóssins tímans lúður kliðar.
Öldin oss vekur ei til værðarfriðar.
Ung er hún sjálf, og heimtar starf, án biðar.
13.
Starfið er margt, en eitt er bræðra bandið,
boðorðið, hvar sem þér í fylking standið,
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,
það er: Að elska, byggja og treysta á landið.
14.
Þá mun sá guð, sem veitti frægð til forna,
fósturjörð vora reisa endurborna.
Þá munu bætast harmasár þess horfna,
hugsjónir rætast. Þá mun aftur morgna.