Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Til Hallgríms Melsted

Fyrsta ljóðlína:Margoft var það hér í húsi þínu
Höfundur:Gestur Pálsson
Viðm.ártal:≈ 1875
Tímasetning:1883

Skýringar

Undir titli stendur: „(26. janúar 1883)“
Margoft var það hér í húsi þínu,
„Hallur“, fyrr vér áttum gleðifund;
treysti æskan ungi kappi sínu,
engan skugga bar á nokkra stund;
þá var bæði rætt og ritað líka,
reistar hallir uppi' í lofti blá;
og oss fannst sem ættjörð enga slíka
ætti garpa – heimur opinn lá.

Bernskan leið – vér öðru sinntum allir,
ótal skugga bar um lífsins hvel –
brotnar lágu bernskudrauma hallir,
brotnar allar lífs við fyrsta él.
Kvæðin vor, þar blóm sín bernskan unga,
bestar vonir, faldi' í kyrrþey hljótt,
fölnuð lágu lífs und klakaþunga,
lágu bliknuð, sum á einni nótt.

Og vér hittumst allir eigi lengur,
einn, né tvo nú fela dauðans tjöld;
þeim sé heill, er hreinn og góður drengur
héðan flekklaus ber sinn æskuskjöld.
Skarðið fylla nú oss nýir drengir,
nýjar bárur verpa' oss lífs um sjó;
hirðum ei þó togni' í stormum strengir
– stillilogn í gröfinni er nóg.

Því vér skulum vaka æ og vinna,
veikt er lífið, stutt er æfihríð,
nornir kaldar, þöglar, þráðinn spinna,
þegar varri minnst er liðin tíð.
Margt þú átt til gagn fyr' góðu' að stríða;
gáfur miklar, skylduverkin full,
frændur göfga, eitt sem allt má prýða,
eitt ið besta – hjarta þitt er gull.

Vér sem ungir lögðum lífs í strauma,
létum sumt, er missast eigi skal,
og við háreist vorra gleði-glauma
gleymdum títt, að nautnin á sinn val.
Eitt ég veit þú heilt barst heims úr glaumi,
hjartað besta, sem þér móðir gaf;
sem það stýrði ungum æskudraumi,
eins þér fylgja mun á dauðans haf.

Þó þú aldrei afrek nokkurt vinnir,
ekkert sem nú fræga gerir þjóð;
hjartans rödd ég hygg þú ávallt sinnir,
– hjartans rödd var vöggu þinnar ljóð.
Þetta hjarta vel og lengi lifi;
loks, er kveður þú vorn hóp og rann,
þitt á leiði vil ég vinir skrifi:
Víst er það, ei getur betri mann.