Kolbrún | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Kolbrún

Fyrsta ljóðlína:Hvert var það fljóða sem eg sá
bls.5–7
Bragarháttur:Fjórar línur (tvíliður) aaaO
Viðm.ártal:≈ 1875
1.
Hvert var það fljóða, sem eg sá
mér svífa um anganstundu hjá,
svo fagurleit og blökk á brá,
>sem blys um geiminn víða?
2.
Hrafnsvörtum lék í lokkum hár
ljósan um háls, um dökkar brár
tindrandi augu ástaþrár
>eldgeisla sendu þíða.
3.
Yfir mig brunnu björt og skær
brúnaljósin, er átti mær,
og aldrei nokkur önnur fær,
>þó enn sé leitað víða.
4.
Svo var að líta ljúf og heið
lofnin hin skæra auðarmeið,
eins og hún kæmi ljóss af leið
>úr Lofða heim’num blíða.
5.
Kulnað var að um Ýmis hold,
eldurinn falinn djúpt í mold;
mér var að líta menjafold,
>sem mjöll af himinboga !
6.
Öll varst að líta heið og há,
hugurinn vermdist, baugagná,
þau er eg blysin blíðu sá
>af brúna himni loga.
7.
Andaði þá um eyru mér
ilmhlýjum blæ er mætti þér,
blíðviðri lék í brjósti sér,
>sem blési gola um voga.
8.
Og mér í hjarta endur brann
eldurinn mær – um hyggjurann,
ó, þið sem vöktuð aftur hann,
>und augna þíðum boga!
9.
Ó, augu blökk, er brúna há
blikandi skinuð himni á,
og kolsvört undir blakkri brá
>brunnuð í dimmum loga!
10.
Ó, augu dökk, eg yður sá,
og aldrei síðan gleyma má –
eg nötra eins og nakið strá,
>en næturvindar soga!
11.
Mörg eru liðin árin ör,
eldr er minni, kulnað fjör;
en þau, sem særðu seima bör,
>svanna augun þíðu –
12.
þau eru enn i minni mér,
og munu, hvað sem eftir fer,
uns móður hnígur málma grér
>að moldar skauti víðu.
13.
Og er á vori sunnan sól
senda gjörir um bala og hól
lifandi geisla, guðs sem ól
>gróðrarfoldin blíða –
14.
þá lifnar enn hin aldna þrá,
aftur mig langar þig að sjá
ókunnu vengi víða frá
>að vegi mínum líða!