A 278 - Í móti ágirnd og búksorg | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 278 - Í móti ágirnd og búksorg

Fyrsta ljóðlína:Mitt hjarta, hvar til hryggist þú?
Bragarháttur:Fimm línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt:aaobb
Viðm.ártal:≈ 0
Í móti ágirnd og búksorg
[Nótur]

1.
Mitt hjarta, hvar til hryggist þú?
Í hugraun og trega velkist nú.
Fyrir valtan veraldarauð
set þína trú á sannan Guð
sem allt skapaði fyrir sitt boð.
2.
Yfirgefa þig ei vill né kann,
alla þörf þína þekkir hann,
hans er himinn og jörð.
Minn sæti faðir og sanni Guð,
þú send mér hjálp í allri nauð.
3.
Þú ert minn Guð og faðir kær,
þitt barn aldrei forlátið fær.
Ást þín er mjúk og mild,
en þó mig mæði eymdin hörð
ekkert hefi eg traust á jörð.
4.
Ríkur af góssi gleður sig,
Guð minn, í þér eg hugga mig
þó hér forlitinn sé.
Það er mín trú og eflaus von,
aðstoð veitir þínum þjón.
5.
Hjálpari Guð, helja var
þá himinn luktist svo ei rigndi par
í þeirri óárstíð.
Á Sídonslandi ekkja ein
allvel fæddi Drottins svein.
6.
Þig mátti engin mæða kvöl
með því Guði þjónaðir vel
og honum hlýðinn vart.
Hrafnar komu með kjöt og brauð
kvöld og morgna að svipta þig nauð.
7.
Einibertré sastu undir þá
engill Guðs kom og lét sig sjá,
bar þér vatn og brauð.
Til Orebsfjalls þar eftir gekkst
öngva neyð á veginum fékkst.
8.
Egypskum Jósef seldur var,
saklaus sat í fangelsi þar.
Guð leit með gæsku hann.
Með herranafni hefur hann gætt
til heiðurs allri sinni ætt.
9.
Á Daníel minntist Guð svo glöggt
í gröf leóna þá var honum sökkt.
Sinn engil sendi út,
fæði lét honum fært þar inn
fyrir Habakkuk þénara sinn.
10.
Sannur Guð birti þá sitt vald,
sveinum þremur var fleygt í eld.
Sinn engil sendi þeim.
Bálið þá ekki brenna má,
burt úr voða frelsaði þá.
11.
Hjástoð Guðs Jóna hlífði þar,
í hvalfiskinum byrgður var
þrjá daga og nætur þrjár.
En fyrir Guðs eilíft ráð
aftur hefur hann landinu náð.
12.
Þitt ríki, Drottinn, þrýtur síst,
þitt vald er stöðugt jafnan víst.
Á þér er allt mitt traust.
Eilíft góss hefur ekkert tál,
auðga með því mína sál.
13.
Stundlegan heiður eg hugsa ei á,
himneskan vildi eg gjarnan fá
hvörn þú hefur keypt
með þínum dauða og dýrri pín.
Drottinn, bið eg, heyrðu til mín.
14.
Allt það veröldin er af full,
eignir, góss, silfur eða gull,
stundligt skraut og skart,
lítinn tíma það lánað var,
líknar ekki sálunni par.
15.
Jesú Guðs son, eg þakka þér
þessa visku þú sýndir mér
fyrir þitt guðligt orð.
Veit mér stöðuga von og trú,
vænst er sáluhuggun sú.
16.
Lof og heiður á hvörri stund,
hæsti Guð, sé þér á alla lund.
Þig, faðir, þess eg bið:
Eilífan gef oss andar frið
og arf himins þá skiljum hér við.