Framar um sama efni* | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Framar um sama efni*

Fyrsta ljóðlína:Þegar að Ísrael út dró
Höfundur:Gunnar Pálsson
bls.231–236
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1787
Framar um sama efni*
Með lag: Jesús Kristur að Jórdan kom.

1.
Þegar að Ísrael út dró
af Egyptanna landi
og Jakob, sem þar áður bjó
útlendur og framandi,
þá lét Guð ei almennings leið
allan þann mikla skara,
heldur þar mörk var mikil og breið,
sem mundu villtir fara
og vel sig kynni ei vara.
2.
Faraó kóngur frétti það,
för slíka ei athugandi;
með heimsku og drambi hleypti af stað
herlið sitt út búandi;
hugðist fanga það flótta lið,
sem frá sér rekið hafði,
kannaðist ekki kraft Guðs við,
kátlig svo blindnin vafði.
Hrekkvísin hefndar krafði.
3.
Til hafsins rauða fólk sitt fram
færði Guð allsvaldandi,
en Faraó þar eftir kom,
útbúnum her treystandi.
Ein þjóðin vel þar aðra sá,
en ekki saman náðu;
hönd Guðs Egypskum hélt þar frá;
en hinir af stríði bráðu
einskis nema óttans gáðu.
4.
Móyses bað menn stillta stá
og stöðugt Guðs hjálpræði,
er hann þeim mundi sýna, sjá,
en sefa óvina bræði.
Opnaðist sjór, en inn gekk þjóð,
yfir um þurrt farandi.
Fagnaðar upp kom fagurt hljóð
fyrir Mósen kveðandi
og fólkið samsyngjandi.
5.
En Faraó með sinn hraustan her,
heimskastur veraldar manna,
í hafið opna hleypti sér,
hugðist leið sömu kanna;
hafði þó áður rammlega reynt,
hvað rýr var hann fyrir Guði;
svo vitkast margur villtur seint,
þá vekur um síðir dauði,
sem flettir þá fjörvi og auði.
6.
Historía þessi er háleit fregn,
hlaðin dásemdum stórum,
fegurstrar náðar frjósamt regn,
ef festist í hugum vorum.
Sjáum hér, hversu sína Guð
sanntrúaða menn leiðir,
frelsandi þá af fári og nauð
og fyrir þeim veginn greiðir,
en óguðlegum eyðir.
7.
Veraldar gata ei það er,
sem áfram Guðs börn halda;
elds og skýstólpinn undan fer
út til hafs dauðans kalda.
Endast þar við óvina kíf,
en opnast lífsins stræti.
Jesús, vegur, sannleikur, líf,
leiðir menn þurrum fæti
með unun og eftirlæti.
8.
Þá fá menn sungið fagurt lof
frelsara vorum góða
fyrir svo dýra friðar gjöf
fegurð og dýrð hans skoða.
Englar Guðs með útvöldum þar
eru þeim líkt fagnandi
frá einni tíð til annarar
að eilífu samstemmandi
á lifandi manna landi.
9.
Ókunnugur í heiminn hér
hvör vor kemur með fyrsta.
Um dag hvern lífsins eins það er,
ei dugir kynnum treysta.
Svo drögumst inn í dauðans haf,
Drottinn oss þangað leiðir.
Það verður ekkert voða kaf,
vernd sína hann yfir oss breiðir
og götu til lífsins greiðir.
10.
Sanna Guðs vini sjáum og vér
sannlega ei þessu kvíða;
heldur, sem kristnum hæfir og ber,
hjarta-glaða þess bíða.
Páll, Davíð, Job, sæll Símeon
sig hér við stórum gleðja;
já, ræninginn í vissri von
veit sér ei dauðann skeðja,
heldur sæluna seðja.
11.
Í fæðingu veit enginn, hvað
um hans hagi þá skeður.
Viltu þá framar vita um það,
sem verða mun nær þú kveður?
Hann, sem þig færði í heiminn inn,
héðan kann vel burt leiða.
Fel hönum allan feril þinn,
því fyrir þér mun hann greiða
og blessan yfir þig breiða.

12.
Hann hefur sjálfur vígt þann veg,
viljandi oss leiða hinn sama.
Hann hefur fylgt þar mörgum mjög
frá myrkrum til ljóssins frama.
Vertu því glöð, mín sæla sál,
sorg lát þig öngva beygja,
fagni nú hjarta, hugur, mál,
hér er stund ein að þreyja,
ábati er oss að deyja.

13 Syng því fagnandi, sála mín,
sjá, hvar er dauðans skeyti?
Helvíti, nú er hrósun* þín
horfin að öllu leyti.
Dauðinn svelgdur í sigur er,
sigraður af Kristi dauða.
Drottinn minn, Jesú, dýrð sé þér,
dómandinn kiða og sauða,
fyrir blessað blóð þitt rauða.

Item -
Dauðinn svelgdur í sigur er
og sá hans hafði veldi.
Tilkall ei framar hefur hann hér
en heimsins loks að kveldi
í eilífum pínast eldi.

Og enn -
Dauðinn svelgdur í sigur er
og Satans hausskel lamin.
Drottinn minn, Jesú, dýrð sé þér
hið dægiligasta samin,
að eilífu, amen, amen!

[1] þurt.

13.3 hrösun] > hrósun.
Athugagreinar

*Það er sama efni og kvæðið Hugvekja.