Rímur af Gretti Ásmundarsyni – fyrsta ríma | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Rímur af Gretti Ásmundarsyni 1

Rímur af Gretti Ásmundarsyni – fyrsta ríma

RÍMUR AF GRETTI ÁSMUNDARSYNI
Fyrsta ljóðlína:Skýrt mig orða skortir val
Heimild:AM 611d 4to.
Bragarháttur:Ferskeytt (ferskeytla)
Viðm.ártal:≈ 1650
Flokkur:Rímur

Skýringar

Einnig er stuðst við Lbs 2323 4to.
Ríman hefur aldrei verið prentuð. Lestexti þessi er unnin á grundvelli stafréttrar uppskriftar Evu Maríu Jónsdóttur á handritatexta.
1.
Skýrt mig orða skortir val,
að skemmta mengi fínu,
þó mun eg draga þagnar bal,
af þrætu sverði mínu.
2.
Mér bauð Hár af minni sýn,
megnið fornra dreggja,
því skal kveik í þundar vín,
að þessu sinni leggja.
3.
Seint mun verða soðinn til fulls,
Suttungs mjöðrinn þunni
svo runnar seims og gefnir gulls
gleðjast af því kunni.
4.
Áður skáldin innan lands
útlendinga sögur,
færðu uppá kvæðakrans,
kveiktist skemmtan fögur.
5.
Öngvu síður orku nægð
Íslendingar báru,
hugarprýði og hreystifrægð
hildartjöldin skáru.
6.
Minnast þeirra mörgum líst
maklegt eigi síður,
dýra hreysti verka víst
vor það skyldan býður.
7.
Þeir með æru, frægð og fremd
frömdu verkin stóru
en við lygi, skömm né skemmd
skiptir aldrei vóru.
8.
Því var eg beðinn af blíðum vin
bragarins iðju verka
að setja upp á Sónar dyn,
söguna af Gretti sterka.
9.
Veit eg því nú visku fús,
vildi þetta iðja,
að ganga svo í geitahús,
góðrar ullar biðja.
10.
Óðarsmiður þó annar fyr
undan hafi hér gengið,
greina skýr um glettu byr,
gladdi lýða mengi.
11.
Þó skipti eg þar sem skýrði frá
skáld með visku beinni,
vandséð er nema verði þá,
verri mærðin seinni.
12.
Um sinn þarf eigi að segja af hans
siðum né hreystihætti,
það kemur fram fyrir sig til sanns
í sögunar hvörjum þætti.
14.
Mun þó hvorki fals né flærð,
fundin hans í verkum
viska heldur og vogunar stærð
var með kappa sterkum
15.
Hér með vilda eg mein né móð
mönnum auka eigi
það þó síst að þrenning góð
þar við styggjast megi.
16.
Athugi spakir orðskvið þann
og trúvirði sína
enginn betur kveðr en kann
og kallsi ei bernsku mína
17.
Hyggnir bæti um boðunar hver,
með blíðu leidréttanda,
en leirskáldin, sem lík eru mér,
láti í kyrrðum standa.
18.
Sest eg undir sögunnar ljóð,
svo með fæstum orðum,
stórverkin að þylja þjóð,
af þætti Grettis forðum.
19.
Ásmundur bráð úlfum hjó,
auknafns hærulangur,
í Miðfirði að Bjargi bjó,
bóndinn orkustrangur.
20.
Ríkt var bú og reisulegt
rekka þénti mengi,
vinsæll maður, veit ótregt,
vel og þar með lengi.
21.
Ásdís hét hans ekta k[v]on,
allvæn hringa nanna.
Atli var þeirra elsti son,
afbragð flestra manna.
22.
Göfuglegur gegn sem hægr,
glaðr og hógvær tíðum,
svo var hann öllum þegnum þægr,
þar í byggðum víðum.
23.
Annar hjóna son var sá,
seggir Gretti nefna,
um afrek hans og manndáð má
málið lengra efna.
24.
Ýtum þótti ungr og smár,
ekki dæll hja lýðum,
óþýður og orðafár
oft með verkum stríðum.
25.
Viðgangurinn senn mun sjást
á sögðum málma spilli,
móður náði mjúkri ást
en miður föður hylli.
26.
Kringlótt ásján karlmans breið,
krókt með freknur víða
rauðhærður um haukaheið
hermdist kempan fríða.
27.
Þeira dóttir Þórdís hét,
þýð við góða vini,
gildum manni giftast lét,
Glúmi Óspakssyni.
28.
Önnur Rannveig ýtum þekk,
efnið þar á styður,
Gamli hét sá gullskorð fékk,
greindur Víðlendingur.
29.
Mæt þau héldu mektar bú,
að Melum í Hrútafirði,
Grímur hét sá gullhlaðs brú,
gat við hringa hirði.
30.
Glúmur og Þórdís gátu son,
get eg hann Óspak heita,
þýð hvar bjuggu þessi hjón,
þarf ei upp að leita.
31.
Grettir Bjargi ólst upp á,
inn til vetra tíu,
heldur nokkuð þroskast þá,
þegn með afli nýju.
32.
Ásmundur sinn arfa bað,
eitthvört verk að starfa.
Grettir sagði: greindu hvað,
gjöra skal eg til þarfa.
33.
Faðirinn sagði fyrst skalt þú,
fugla gæta minna,
h[eim]gæsunum hugalt nú,
hversdaglega sinna.
34.
Lítið verk og löðurmannlegt
líst mér, Grettir tjáði,
efn það vel en eigi tregt,
aftur bóndinn jáði.
35.
Heldur batna mun þá meir
málbragð okkar sanna, -
fimmtíu vóru fuglar þeir
og fjöldi kjúklinganna.
36.
Efni þetta undir bast,
ungi maðr að hlýða,
h[eim]gæsunum fylgdi fast,
fram svo stundir líða.
37.
Skömmu síðar þóttu þær,
þverrækar úr máta
og kynja seinir kjúklingar,
kalt tók að þeim láta.
38.
Förukonur fundu þá,
fugla litlu seinna,
vængbrotnir þeir voru að sjá
verkað eigi hreinna.
39.
Kjúkling margan hér og hvar,
úr hálsliðunum undinn,
litu út um þorpin þar,
þá var haustuð grundin.
40.
Bónda líkaði býsna ver,
byrstur spurði Grettir
er það satt sem frétt um fer,
þú fugla af lífi settir?
41.
Varð þá Grettis vísa laus,
þá vorar eg það gjöri:
af kjúklingum að hýða haus,
og hinum, þó eldri væri.
42.
Ei skaltu þeim oftar á,
Ásmundur þá sagði,
berja svo þeir falli frá,
með fólskuhandar bragði.
43.
Veldur sá er varir og ei,
varnar Grettir téði,
annað verk þér eg til sei, [seg]
Ásmund mæla réði.
44.
Sá veit fleira er fær það reynt,
við föður sinn Grettir sagði,
þú munt láta þetta geymt
þar hinn já til sagði.
45.
Bak mitt strjúka bert við eld
bauga skaltu lundur,
það mun hægt um hönd eg held,
hringa sverða þundur.
46.
Vesalmannlegt verk það mér,
virðist ungum manni,
Grettir þetta fremja fer
fór þá haust að ranni.
47.
Helst var kall um holdsins þak,
heitfengur á búki,
eggjar Gretti að sitt bak,
óraglega strjúki.
48.
Dallur var í sögðum sal,
sætur tó þar brúka,
karlsins bak um kveld eitt skal,
kenndur Grettir strjúka.
49.
Reka munt hljóta allt hvað er,
orð þau komu af bónda,
slítt í burtu slenið frá þér
slæm mun skræðan vónda.
50.
Óbilgjarnan eggja mann
illt mun, Grettir sagði;
ullarkamba fyrir sér fann
og fljótt á hrúður lagði.
51.
Upp og niður svo eymdist hryggr,
ótæpt lét þá ganga,
karl varð óður og steytti styggr
staf við Grettis vanga.
52.
Hann skaust undan höggi því,
húsfrú kom í þessu
birtust henni brögðin ný,
af brjóti unda skessu.
53.
Illa tókst, kvað auðar grund,
að þú þetta gerðir,
ófyrirleitinn alla stund,
uggir mig þú verðir.
54.
Eigi löngu eftir það
Ásmundur réð inna,
Grettir, þú skalt geyma í stað
gildra hrossa minna.
55.
Eina hryssu eg á þá,
er Kengálu kalla,
hirðir sú vís um veðra þrá,
og vatnagöngur allar.
56.
Vís mun hríð ef vill hún ei,
vera á jarðarhaga,
byrg um nætur hross, en hey,
hvergi að þeim draga.
57.
Haltu þeim norður á hálsinn frekt,
of harðan vetr að leggur
kalt verk er það karlmannlegt
kvað hinn yngri seggur.
58.
Mun það óráð mest eg hygg,
á merina trúa neina,
vissa eg öngvan vopna ygg,
verða fyr það reyna.
59.
Grettir hrossinn geyma fór,
gekk svo fram að jólum,
fáklæddur var faldaþór,
en fannir í öllum skjólum.
60.
Yfrið harður vetrinn var,
veður og frostin stóru,
en hestamaðurinn heldur sig þar,
sem hæstir grandar vóru.
61.
Aldrei var svo illt á þeim,
eitt sinn það til bæri,
hún gengi fyr til húsa heim,
heldr en dagsett væri.
62.
Þótti Gretti þetta leitt,
því hann kuldinn píndi,
halurinn ráðið hugsar eitt,
sem hömlun nokka sýndi.
63.
Með beittum kníf í burtu skar
baklengjuna alla,
yfrið hér kæl af því var
svo úti þoldi varla.
64.
Karl til hryssu kom að sjá,
kvað svo snemma inni,
vondra hríða vænti þá,
venju eftir sinni.
65.
Mælti Grettir: mannvit skaust
mörgum beiti stála,
sem meira hafði á menntum traust
en merin, hún Bleikála.
66.
Ásmund þetta undra[r] mest,
ei brá veðra falli,
en Kengála undi verst
úti á beitar hjalli.
67.
Hann þreif fast um hennar bak,
hún stóð innst hjá stalli,
merin á stóra ringi rak,
svo réði við Ása kalli. [falli]
68.
Fann hann brátt að fleginn *var
*hryggr frá lend á makka,
málóður svo mælti styggr,
má eg það Gretti þakka.
69.
Við Ásmund talaði ekta frú,
allt því stilla vildi,
Grettis) frænda geymsla nú,
gagnlega reynast skyldi.
70.
Furðu var með feðgum kalt,
fyrir því inna náði,
vinnur hann mér af ódyggð allt,
en öngu heillaráði.
71.
Ei lést þetta óttast neitt,
upp tók bóndi ráðið greitt,
*Í réði þann til hjarðar manns,
er hér var kominn til Íslands.
72.
Kengálu lét karl af slá,
hún kemur ei meir við fræði,
vildi Grettir vaxa þá,
vöxtr og *orku bæði.
73.
*Vísu hans fáir *virðir af,
var þó gleyminn eigi,
verkaði heldur vísna draf,
vont þó nokkrir segi.
74.
Á þeim sveitum um það bil,
ólust upp, eg segi,
margir þar sem mærðar spil,
*mal af lengir eigi.
75.
Bessi var ei tryggðatregr,
að Torfastöðum til heima,
gott skáld og svo gjörfulegr,
gegn á meðal beima.
76.
Ómaga skáld var Oddur kenndr,
á Mel í Miðfirði,
Auðunn býr svo hraustar hendr,
honum ei jafnað virði.
77.
Ásgeirs nefni eg arfa kálf,
og Þorvald hans bróðir,
allir voru við orfaþjálf
afrekskappar góðir.
78.
Atli bar við þegna þrek,
þó frægastur bragna,
köppum þeim í lyndi lék,
leik með knetti magna.
79.
Fýstist þangað firða val,
úr fjóum nándarsveitum,
knappan þegar knöttin skal,
knýja handar streitum.
80.
Grettir þangað vaskur veik,
var hann þá þrettán ára,
eiga skal við Auðun leik
eyðir Freyu tára.
81.
Auðunn knöttinn áfram sló,
yfir Grettir hærra,
reiddist hann við þetta þó,
og þótti sitt hið smærra.
82.
Hart við knetti hendi stakk
í hjálma frónið sendi,
Auðuns fyrir í enni sprakk,
af því heiftar kendi.
83.
Með knattadrepunni kynstrum sló,
kempan höldinn fríða,
hann hljóp undir höggið, þó
hlaut svo fall að líða.
84.
Kné lét fylgja kviði sem má
knár þar Auðunn lengi,
Atli og Bessi efndu þá,
aðstod Grettir fengi.
85.
Það vill eigi þorna grér,
þekkjast á þeim fundi,
hann kvað þyrfti ei höldar hér,
að hjálpa sér sem hundi.
86.
Þræll einn hefnir, þegninn kvað,
þegar en argur aldri
við Auðun bjó þó eftir það,
oft yfir þykkju kaldri.
87.
Kveðið er stirt enn kennt þó rangt,
komið veðr í svíma,
nóg mun þykja lýðum langt,
lendi hin fyrsta ríma.


Athugagreinar

Athugasemdir:
26.3 „Haukr“ er skv. uppflettiriti Finns Jónssonar, Orðbog..., algengt í kenningum fyrir skip, en getur einnig verið hluti kenninga um huga, hugsun. Í þessu samhengi gæti „haukaheið“ verið kenning um höfuð.
28.4 Í skýringum í útgáfu Íslenskra fornrita frá 1936 á Grettis sögu er Gamli sagður „faðir Þórhals Vínlendings“ (bls. 101) en ritháttur þessa viðurnefnis er misjafn eftir handritum og er „víðlendingur“ ritháttur bæði AM 551 A, 4to og AM 556 A, 4to. Héðan í frá verður vísað til blaðsíðutals þessarar útgáfu Grettis sögu.
41.2 Í Grettis sögu segist Grettir, í 8. vísu, vinna verkið er vetrar: „þat gerik víst, es vetrar, vind ek hals á kjúklingum.“ (bls. 37).
48.3 Sennilega vantar orðið „bak“ í AM 611 d 4to, en það er að finna í handritinu Lbs 2323 4to.
49.3 Í handriti er skrifað „flítt“, en væntanlega hefur skrifari ætlað að skrifa „slitt“, sem passar betur við samhengi og stuðlasetningu erindisins.
83.4 Skrifað á spássíðu vinstra megin. Blað hefur verið skorið svo fremstu stafir hafa skorist af.