Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Á afmæli kattarins

Fyrsta ljóðlína:Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul,
geymir á bak við sig marga dul,
óargadýranna eðli grimmt
á sér í heilanum fylgsni dimmt.
2.
Alla tíð var þó með okkur vel,
einlægt mér reyndist þitt hugarþel,
síðan ég forðum þig blindan bar,
breiddi á þig sæng þegar kaldast var.
3.
Fimm voru systkinin fædd í heim,
fagnar þú degi hið eina af þeim;
hinum var öllum í æsku drekkt,
ósköp er kattlífið dapurlegt.
4.
Lifað nú hefur þú árið eitt,
oddhvöss er vígtönnin, klóin beitt;
stundum á kvöldin með kurteis hljóð
kveðurðu af munni fram ástaljóð.
5.
Andvakan þykir mér yfrið löng
uns ég í garðinum heyri söng,
hugurinn glaðnar þá heldur til,
hlægir mig dillandi raddarspil.
6.
Til munu þeir sem það tónverk líst
tilkomulítið, en eitt er víst:
læðan sem kúrir í leyndum stað
leggur við eyrun að hlusta á það.
7.
Mjúkur, með kirfileg kampahár
kemurðu að dyrum í morgunsár,
upp þig úr munnvatni allan þværð,
augunum lygnir í sæld og værð.
8.
Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.
9.
Trýnið þitt starfar og titrar kvikt,
tekst því að skynja svo marga lykt,
þar sem mér ekki með allt mitt nef
unnt er að greina hinn minnsta þef.
10.
Bugðast af listfengi loðið skott,
lyftist með tign er þú gengur brott;
aldrei fær mannkindin aftanverð
á við þig jafnast að sundurgerð.