Gamalt kvæði | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

Gamalt kvæði

Fyrsta ljóðlína:Einum Guði þú alla tíma hlýðir
Heimild:ÍB 105 4to.
bls.678
Viðm.ártal:≈ 1600–1700
1.
Einum Guði þú alla tíma hlýðir.
Heimsins spornaðu vélum við,
vefðu þig ekki í vondum sið.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
2.
Heilræðunum hvörgi á móti stríðir.
Frómra manna ræk þú ráð,
ríkan bið þú Guð um náð.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
3.
Aldrei neinn í orðum þínum níðir
en með tungunni talaðu gott,
temdu þig hvörki á háð né spott.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
4.
Þó aðkastið af illum mönnum líðir
gefðu þig ekki grand þar að,
Guð mun rétta seinna það.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
5.
Í guðrækninni og góðum sið þig skrýðir.
Í orði Drottins iðka þú þig,
er sú breytnin kristilig.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
6.
Bænrækninni og bestum siðum þig prýðir,
kvöld og morgna að kunna það
að krjúpa Drottins fótum að.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
7.
Á bráðlætinu blekkjast margir lýðir
en hvör sem bíður og byrinn fær
bestu höfnum loksins nær.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
8.
Aldregi degi ókomnum þú kvíðir.
Himnafaðirinn hugsun ber
hvörja og eina stund fyrir þér.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.
9.
Sturlast ei þó stundarkornið líðir.
Guð þér velur það gæfulag
sem gjörir að stunda nótt sem dag.
Mun þá falla mjög vel allt um síðir.