Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Auví, minn Guð, álít þá nauð

Fyrsta ljóðlína:Auví, minn Guð, álít þá nauð
Viðm.ártal:≈ 1675
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Í útgáfunni er sálmurinn prentaður eftir JS 208 8vo, bls. 103–108, og aðeins vikið frá því á einum stað. Hér er sálmurinn birtur orðrétt eftir útgáfunni.
Sálmur þessi er varðveittur í átta þekktum handritum fyrir utan aðalhandrit, JS 208 8vo, bls. 103–108, en þau eru: Lbs 271 4to, bls. 71–72 (brot); Lbs 35 8vo, bls. 546–549; Lbs 199 8vo, bls. 11–14; Lbs 739 8vo, bls. 150–155; Lbs 1724 8vo, bls. 156–159; Lbs 1976 8vo, bls. 193–198; JS 272 4to I, bl. 165r–166v, og ÍB 380 8vo, bls. 182–186.
Sálmurinn var fyrst prentaður í Útgáfu Gríms Thomsens: Sálmar og kvæði II, bls. 226–229.
Tón: Ó, Jesú þér, æ viljum vér, etc.
1.
Auví, minn Guð, álít þá nauð
sem eigum vér að líða.
Börnin þín hýr, ó, drottinn dýr,
döpur hér hljóta að stríða.
Mótlætiskross mjög þjáir oss,
margvísleg er sú pína.
Vor Jesú kær, vertu mér nær
og vernda sálu mína.
2.
Hvör lyndishreinn vill lærsveinn
lausnarans Jesú vera
kynjaþungan mun krossinn þann
með Christó hljóta að bera.
Heimsins aðkast, hæðni og last
honum mun bregðast eigi.
Vor Jesú kær, vertu mér nær
vel so eg standa megi.
3.
Sjaldan er ein ólukka nein.
Orðtak það satt má heita
þar þungur kross þjakar að oss
þá taka á að leita.
Andskotinn flár, samviskan sár,
sjálfur heimurinn argi.
Vor Jesú kær, vertu mér nær,
vernda so enginn fargi.
4.
Andskotinn fyrst með flærðarlist
freistingar gjörir að bjóða
og syndaskrá samsetur þá
sál fyrir hrellda og móða.
Hana með pín ill athöfn mín
allri því sviptir sælu.
Vor Jesú kær, vertu mér nær,
vernda frá syndakælu.
5.
Lögmálsins grein með lymskumein
leggur hann mér fyrir hendur.
Bölvaður er sá heldur ei hér
hvað þar í skrifað stendur.
Vond samviskan víst vakna kann
við freisting þessa stríða.
Vor Jesú kær, vertu mér nær,
vægð þína send mér blíða.
6.
Lifnaðinn minn so ljótan finn,
lagabrot hef eg framið.
Aum bölvan sú mig angrar nú
er eg mér hefi samið.
Ill launin mín er alls kyns pín
eilífra heljarglóða.
Vor Jesú kær, vertu mér nær
veitandi *huggun góða.
7.
Heimurinn hér hæðir að mér
og heimskan gjörir að kalla.
Hann spyr í nauð: Hvar er þinn Guð
hvörjum þú fram réðst falla?
Útskúfaðan ei aktar hann,
auman hann þig forsmáir.
Vor Jesú kær, vertu mér nær
voðinn þegar þig þjáir.
8.
Í soddan hryggð hér heims um byggð
hvört skal eg ráða leita?
Öll skepnan mér á móti er
og mannraun gjörir að veita.
Hvar skal eg þá mér hæli fá,
hjálp öngva kann eg finna?
Vor Jesú kær, vertu mér nær
og virðstu bót að vinna.
9.
Angruð sál mín, augunum þín
upp til drottins skalt renna.
Þar máttu nú með réttri trú
mildastan Jesúm kenna
sem bróður minn bar veikleik þinn,
björg er þér ágæt fengin.
Vor Jesú kær, vertu mér nær
vélráð so skaði engin.
10.
Góði Jesú, greitt hefur þú
gjald fyrir misgjörð mína.
Hér fyrir eg á öngvan veg
efa skal miskunn þína.
Gleð þig, mín sál, glæpanna tál
granda skal þér nú eigi.
Vor Jesú kær, vertu mér nær
vinna so hörmung megi.
11.
Þó djöfullinn með selskap sinn
og samviskan ill mig nagi,
heimurinn flár með fólskudár
fussi við mér og hlæi
hræðist eg síst því herrann Christ
hefur mig að sér tekið.
Vor Jesú kær, vertu mér nær
veröldin so ei hreki.
12.
Ég gef mig þér, gæt þú að mér,
góði hirðirinn sauða.
Geym, herra, mig frá heljarstig
og hættum andardauða.
Stund síðstu á, ó, Jesú, þá
að mér virðstu að gæta.
Vor Jesú kær, vertu mér nær,
voða lát sál ei mæta.
13.
Eg fel mig nú með fríðri trú
á forsjón þína ríka.
Hýr faðir minn, hvað vilji er þinn
af hjarta vel skal líka.
Þín verndin há veri mér hjá
vel so eg deyja kynni.
Vor Jesú kær, vertu mér nær,
veikastri skepnu þinni.
14.
Eilíft lof, dýrð ætíð sé skýrð
af englum bæði og mönnum
kónginum þeim sem kristna um heim
með krafti verndar sönnum.
Vegsemdartón með sætan són
sé þér, minn Jesú, framen.
Vor Jesú kær, vertu mér nær,
vernda sál mína! Amen.
Amen


Athugagreinar

Lesbrigði:
6.8 veitandi huggun] og veit mér huggun ÍB 380 8vo; Lbs 1976 8vo; Lbs 739 8vo; Lbs 35 8vo, Lbs 199 8vo, Lbs 271 4to. huggun] Lbs 1724 8vo; JS 272 4to I; ÍB 380 8vo; Lbs 1976 8vo; Lbs 739 8vo; Lbs 35 8vo; Lbs 199 8vo og Lbs 271 4to. hugun JS 208 8vo.