A 087 - Ein andleg vísa um Kristí uppstigning | BRAGI
Bragi, óðfræðivefur

Söfn

Íslenska
Íslenska

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Innskráning ritstjóra

A 087 - Ein andleg vísa um Kristí uppstigning

Fyrsta ljóðlína:Eg trúi á Guð eilífan
Höfundur:Zwick, Jóhannes
bls.lvij
Bragarháttur:Sjö línur (tvíliður+) fer- og þríkvætt aBaBccB
Viðm.ártal:≈ 1575
Flokkur:Sálmar

Skýringar

Undir fyrirsögn stendur:
Við tón: Í dag þá hátíð höldum vér.
Í lok hvers erindis er tvítekið: Allelúja. Og verður það í raun áttunda lína erindis.
Auk Sálmabókar Guðbrands 1589 er sálmurinn prentaður í eftirtöldum sálmabókum: Sb. 1619, bl. 56; sb. JÁ. 1742, bls. 174–175; sb. 1746, bls. 174–175; sb 1751, bls. 292–293 og Höfuðgreinabók 1772, bls. 60–61.
Sálmurinn er þýðing á þýskum sálmi, „Ich glaube an Gott, den Vater mein“, eftir Johannes Zwick.
(Sjá: PEÓl: „Upptök sálma og sálmalaga í Lútherskum sið á Íslandi.“ Árbók Háskóla Íslands háskólaárið 1923–1924. Fylgirit. Reykjavík 1924, bls. 101–102).
Ein andlig vísa um Kristí uppstigning
Við tón: Í dag þá hátíð höldum vér

1.
Eg trúi á Guð eilífan
og hans son, Jesúm Kristum,
að frelsað hefur fyrir hann
fólk sitt af öllum löstum.
Trúi eg, að hann til himna sté,
hlýði og til sín inn leiðe
oss sem nú á hann treystum.
Allelúja, allelúja.
2.
Eg trúi, við Guðs hægri hönd
hann sitji, jafn í valdi,
sundur brýtur öll Satans bönd,
að sinni kristni haldi.
Frá eymd heimsins og allri pín.
oss leið í himna upp til þín,
Jesú, með þinni mildi.
– Allelúja, allelúja.
3.
Eg trúi eins sem upp sté hann,
aftur komi og dæmi.
Dvöl sú lengi ei dragast kann
dulin þó stund sé heimi.
Teiknin þau öll, sem skyldu ske,
skiljum og sjáum enduð sé,
þó flestir þessu gleymi.
Allelúja, allelúja.
4.
Allt heldur þetta heimur spé,
hælir sér mjög í máli,
að sína glæpi auðvirðe,
ann svo veraldar táli.
Þann hefndardag ei hugsa vill,
hörmung eilíf, sé þung og ill,
iðrun ógild í báli.
– Allelúja, allelúja.
5.
Uppstigning Jesú er í dag
almennt um heiminn víða.
Margir iðka þó annað lag,
unna syndum og hlýða.
Brauðkaupsklæði ei á þeim er.
Eflaust hvað í dag sungum vér,
munu þeir minnast síðar.
– Allelúja, allelúja.
6.
Ó, Guð, lát þú vor orð og lund
eins í sannleik hljóða,
svo hugsum oft þá síðustu stund,
sjáum við andarvoða.
Sem skýið áður upptók Krist,
oss flytji inn í himnavist.
Guð gefi oss þann góða.
– Allelúja, allelúja.