Vor í dalnum | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vor í dalnum

Fyrsta ljóðlína:Nú þjóta upp þúfnarindar
bls.bls. 17
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Nú þjóta upp þúfnarindar
og þýðir blása vindar.
Nú gráta gneypir tindar
því golan bræðir snjó.
Á bónda brúnin léttist
og bakið lúna réttist
er fyrst til vorsins fréttist
og fuglar syngja í mó –
2. – og fuglar fljúga um geiminn.
Nú fæðast lömb í heiminn
og fótamjó og feimin
þau fara að kroppa lyng.
Og lækir dansa í drögum.
Nú dafnar hjörð í högum
og svalar svöngum mögum
á sætum nýgræðing.
3.
Og úti er gott að ganga
því grænir vellir anga
og blærinn blítt á vanga
sem barnshönd klappar, hlýr.
Og börnin úti á bala
við blómin ungu hjala.
Nú fagnar fegurð dala
allt: fuglar, menn og dýr.


Athugagreinar

Á annarra grjóti Ak. 1949 bls. 17