Skammdegi | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Skammdegi

Fyrsta ljóðlína:Kaldir vindar kemba fjúk
bls.156
Viðm.ártal:≈ 0
1.
Kaldir vindar kemba fjúk
á klökugu bæjarþaki.
Móðir dagsins, sól, er sjúk
sefur að fjallabaki.
2.
Úti´ er þögult allt og hljótt.
En í hásal kvelda
kyndir voldug vetrarnótt
vafurloga elda.
3.
Brúnadökk í blárri höll
brennir köldum ljósum
situr við og saumar öll
svellin gylltum rósum.
4.
Veröld dagsins virðist mér
verða smærri´ og smærri
því af nóttin opnuð er
önnur miklu stærri.
5.
Gefur hugmynd guðs um þrótt
gagnvart moldarbarni
einn að vera á auðn um nótt
úti´ á vetrarhjarni.
6.
Þreytt af leit um loftið hátt
líknar, sorg að hugga
gleður augað lítið lágt
ljós í stofuglugga.
7.
Veröld drottna heims er hjarn
heiðstirnd hvelfing nætur
þín ei - maðkur, - moldar barn
máttarveikt, sem grætur.
8.
Þeim mun verða stríðið strangt
er stefnir burt frá sólu
og sér hættir allt of langt
inn í geima njólu.
9.
Nú er fokin flest í skjól
fönn í köldum vindum
en gott að líta gull þitt, sól
glóa´ á efstu tindum.