Bjart brúðkaupsljóð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Bjart brúðkaupsljóð

Fyrsta ljóðlína:Bjart er um storð og sól yfir sæ
Viðm.ártal:≈ 0
Bjart er um storð og sól yfir sæ,
söngur í hlíð og í runni.
Veröldin brosir í vorhlýjum blæ,
nú vagga sér bárur á unni.
Víst er þá tími að vinna sín heit,
vinabönd óbrotgjörn hnýta.
Bönd sem að ástin skóp einlæg og heit
og enginn fær megnað að slíta.

Fyrir augliti Drottins er unnið það heit,
af einlægu falslausu hjarta.
Hreint eins og blómstrið í hamingjureit,
hlýtt eins og fjallheiðið bjarta.
Með styrk til að ganga mót stríði og þraut,
mót stormi á veraldar leiðum
og hug til að gleðjast á gæfunnar braut
við geisla frá sálvarma heiðum.

Við gleðjumst með ykkur sem bindið það band,
sem blessað er á þessum degi.
Framtíðin enn er sem ónumið land
á ævinnar torgenga vegi.
Hvar sem þið farið um framtíðarlönd,
fagnandi sigrinum þráða,
sem unnist fær þar sem að hönd styður hönd,
og hjörtun fá göngunni að ráða.

Á góðvinafundi við gleðjumst í dag,
en gott er með vinum að kætast.
Með dýrustu óskir um hamingjuhag,
þar heitustu vonirnar rætast.
Við biðjum að vorsólin vermi þann reit,
vonanna er búa í hjarta.
Og lýsandi verði ykkar hamingjuheit,
sem heiðloftið tæra og bjarta.