Bölsýni | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Bölsýni

Fyrsta ljóðlína:Sólin á himninum hlær
bls.38-39
Viðm.ártal:≈ 1925
Sólin á himninum hlær
heiðríkjan er svo blá.
Það bærist örlítill blær
bylgjast kvistir og strá.
Loftsins lind er svo tær
allt lifnar sem bergir á
hún sorann úr sálinni þvær
og sorgir, er mennina þjá.
Þrautum sem þjáðu í gær
þekkingin sópar frá.
Þjóðlífið þróast og grær
þúsundfalt rætist hver spá.
Marki, sem forðum var fjær
finnst oss nú auðvelt að ná.
Hjartað af hamingju slær
hugarins vængsterku þrá
flýgur í heiðloftin há
hamlar ei ókynnis sær.
Hvort virðist þér, vinur minn kær
ei veröldin dýrleg að sjá?
– Ég undrast, hve háðslega hann hlær
og harðlega svarar mér þá:
„Erum við nokkru nær:
er neyð ekki, hvar sem menn gá?
Og fjandinn uppskeru fær
af flestu, er mennirnir sá.“


Athugagreinar

Fyrirsögn: Bölsýni(Leikur með rím)